Enski boltinn

Tottenham vill deila leikvangi með NFL liði

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Michael Dawson gerir tilraun til að kasta bandarískum fótbolta. Mike Lupati lætur sér fátt um finnast
Michael Dawson gerir tilraun til að kasta bandarískum fótbolta. Mike Lupati lætur sér fátt um finnast MYND:NORDIC PHOTOS/GETTY
Tottenham hefur í bígerð skipulagningu nýs fjölnota leikvangs fyrir 65.000 áhorfendur sem liðið myndi nýta ásamt liði í bandaríska fótboltanum, NFL. Ekki er víst hvort enska knattspyrnusambandið gefi grænt ljós á það.

Um er að ræða samstarf Tottenham og nýs liðs í NFL sem myndi gera út frá London. Tottenham hafði fyrr á þessu ári hætt við byggingu nýs 56.000 áhorfenda leikvangi  sem liðið hafði fyrirhugað að byggja fyrir um 400 milljónir punda.

Tottenham hefur nú þegar ráðið Populous sem hannaði Ólympíuleikvanginn og Emirates leikvanginn, heimavöll Arsenal, til að hanna völlinn stóra sem myndi skipta auðveldlega á milli knattspyrnu og bandarísks fótbolta.

Samkvæmt heimildum The Mail on Sunday er hugmyndin að hægt væri að færa grasið til að verja völlinn þegar leikvangurinn yrði notaður fyrir NFL leiki. NFL leikir hafa farið fram á Wembley og myndi Tottenham vilja fá þá leiki á nýjan leikvang sinn eða deila vellinum með NFL liði í London.

Þrír NFL leikir verða leiknir á Wembley á árinu 2014 en myndi lið flytja sig til London frá Bandaríkjunum myndi liðið leika átta heimaleiki þar. Ekki er talið að Wembley gæti verið fastur heimavöllur þess liðs og það vill Tottenham nýta sér.

Tekjur Wembley af NFL leik eru allt að ein milljón punda per leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×