Innlent

Miklar breytingar á flugvallarsvæðinu

Heimir Már Pétursson skrifar
Framtíð alþjóðlegu flugstjórnarmiðstöðvarinnar sem skapar Íslendingum milljaðra tekjur á ári í gjaldeyri, var tryggð með samkomulagi ríkis og borgar um Reykjavíkurflugvöll á föstudag. Bygging íbúðarhúsnæðis á flugvallarsvæðinu hefst strax á næsta ári.

Umfang starfseminnar í alþjóðlegu flugstjórnarmiðstöðinni við Reykjavíkurflugvöll hefur vaxið mikið á undanförnum árum og nauðsynlegt að stækka hana. Ef hins vegar hefði þurft að flytja starfsemina á nýjan stað hefði það kostað gífurlegar fjárhæðir.

Samkvæmt skipulagi átti bygging flugstjórnarmiðstöðvarinnar að víkja en eftir samkomulagið á föstudag verður hún stækkuð um 2.600 fermetra.

„Frá því núverandi bygging var hönnuð hefur umferð um íslenska flugstjórnarsvæðið aukist um 80 prósent. Störfum hefur líka fjölgað mikið vegna þess að umhverfið er orðið flóknara,  eftirlitið miklu meira og meiri stuðningsvinna við þetta allt saman,“ segir Ásgeir Pálsson framkvæmdastjóri flugþjónustusviðs Isavia.

Flugstjórnarmiðstöðin veltir um 4,5 milljörðum króna á ári í beinhörðum gjaldeyri sem flugfélögin greiða fyrir yfirglugsþjónustu og aðra þjónustu á íslenska flugstjórnarsvæðinu. Starfsemi er í flugstjórnarmiðstöðinni allan sólarhringin og því hefði þurft að byggja aðra flugstjórnarmiðstöð fullbúna tækjum áður en hægt hefði verið að leggja núverandi flugstjórnarmiðstöð niður.

Hætt er við að þjónustan hefði farið úr landi með árunum ef byggja hefði þurft annars staðar.

„Ef byggja ætti utan um þessa starfsemi á öðrum stað þyrfti að byggja hana alla upp með tækjabúnaði og öðru slíku. Það hefði orðið verulegur kostnaður af því eða allt að 15 til 20 milljarðar króna,“ segir Ásgeir. En til samanburðar er talið að viðbygging kosti á bilinu 800 milljónir til milljarð. Reiknað er með að viðbyggingin verði boðin út snemma á næsta ári og byggingunni lokið um mitt ár 2016.

Byggt á flugvallarsvæðinu En það breytist fleira með samkomulaginu þegar suðvestur-norðaustur flugbraut Reykjavíkurflugvallar verður lögð af á næsta ári, að sögn Dags B. Eggertssonar formanns borgarráðs.

„Þar sjáum við fyrir okkur litlar og meðalstórar íbúðir fyrir ungt fólk og barnafjölskyldur. Þétta og góða borgarmynd bæði Hlíðarenda megin við Valssvæðið og svo Skerjafjarðarmegin. Þetta verða sannarlega mjög spennandi uppbyggingarsvæði,“ segir Dagur.

Og þótt það sé ekki hluti af samkomulaginu vill forstjóri Icelandair Group bæta aðstöðu Flugfélags Íslands til að þjóna farþegum félagsins á Reykjavíkurflugvelli. Björgólfur Jóhannsson forstjóri Icelandic Group segir félagið vilja ræða við eigendur landsins á flugvallarsvæðinu um byggingu nýrrar aðstöðu.

„Starfsemi okkar hefur verið þarna í tugi ára og hefur að sjálfsögðu ákveðin rétt þarna á svæðinu. Við erum komin þarna með heimild til ársins 2022 og hljótum að reyna að vinna okkur svigrúm til að bæta aðstöðu fyrir okkar farþega,“ segir Björgólfur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×