Innlent

Segir etanól eldstæði ekki eiga að vera í umferð

Elísabet Hall skrifar
Stefán Gunnar Gunnarsson, eigandi hússins í Hveragerði þar sem sprenging varð vegna etanól eldstæðis, lýsti atvikinu þannig að við áfyllingu á etanól-eldstæðinu virðist eldsneyti hafa lekið ofan í falskan botn fyrir neðan áfyllingarskálina áður en kveikt var upp í arninum. Þetta hafi verið orsök sprengingarinnar.

Í danskri rannsókn sem framkvæmd var á tilraunastofu var fyllt á etanól eldstæði og um það bil einni matskeið hellt niður utan við áfyllingarskálina áður en kveikt var upp í. Og eftir um 20 mínútur varð mikil sprenging. Miðað við lýsingu á atvikum í gær, hafa nákvæmlega sömu aðstæður skapast og í tilrauninni.

Rétt er að benda á að Stefán Gunnar er slökkviliðsmaður með 25 ára reynslu í starfi og vel vanur meðhöndlun á eldfimum efnum.

Sigtryggur Sigtryggsson, framkvæmdastjóri Blikkás - Funa, bendir á að hætta geti skapast við lítil mistök í meðferð þessara tækja.

„Fólk ætti að vera á varðbergi yfir notkun við svona græjur. Þetta er ekki bara lýsi sem þú kveikir í heldur er þetta nánast til bensín og allt sem fer utan með tækinu það á til að hitna við brunann ofan í tækinu og myndar gufur, gas nánast til sem við ákveðin skilyrði springur bara og fleygir öllu frá sér sem fyrir verður.“ 



Sigtryggur segir að nauðsynlegt sé að fylgja í hvívetna eftir leiðbeiningum sem með tækjunum fylgja og að varasamt geti verið að kaupa notuð tæki á vefsölusíðum.

„Það er náttúrulega erfitt að átta sig á meðhöndlun svona hættulegra efna nema þú lesir leiðbeiningarnar sem tækjunum fylgja. Þau tæki sem við erum með á boðstólum sem eru ekki stór tæki en við látum fylgja leiðbeiningar með hverju einasta tæki, hvað geti gerst og hvað þurfi að varast. Í jafnvel eðlilegu tæki þarf ekki nema eina til tvær matskeiðar af etanóli að fara á vitlausan stað til að valda góðri sprengingu.“

Mætti gera betur í umsjón með svona tækjum?

„Tvímælalaust. Ég tel þessi tæki vera hættulegri en það að þetta eigi bara að vera í umferð yfirleitt.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×