Enski boltinn

Pellegrini vill að blaðamenn spyrji Hart út í sjálfstraustið

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Manuel Pellegrini, stjóri Manchester City, neitaði að lýsa yfir stuðningi við markvörðinn Joe Hart eftir 2-1 tapið gegn Chelsea í gær.

Skelfileg mistök Hart undir lok leiksins færðu Fernando Torres sigurmarkið á silfurfati. Hart hafa verið mislagðar hendur upp á síðkastið og virðist ekkert lát á.

„Ég ætla ekki að deila hugsunum mínum með ykkur,“ sagði Pellegrini sem var einnig hundfúll yfir fagnaðarlátum Jose Mourinho í kjölfar sigurmarksins. Portúgalinn hljóp upp í stúku og fór svo að stjórarnir tókust ekki í hendur í leikslok.

„Ég ítreka að ég fer yfir frammistöðu leikmanna minna með leikmönnum mínum. Þið verðið sjálfir að spyrja Hart út í sjálfstraust hans,“ sagði Pellegrini á blaðamannafundi eftir leikinn.

Stjórinn frá Chile sagði City hafa tapað þremur leikjum á útivelli óverðskuldað. Ítrekað skoruðu andstæðingarnir mörk eftir klaufaleg mistök sinna manna. Liðið þurfi að skipuleggja sig betur og nýta tímann.

Mourinho afsakaði fagnaðarlæti sín og sagðist hafa farið til móts við son sinn. Tilfinningarnar hefðu tekið yfir líkt og þegar hann skemmdi buxurnar í fagnaðarlátum í sigri Real Madrid á City í Meistaradeildinni á síðustu leiktíð.

„Við fengum líka jöfnunarmark á lokamínútunni gegn Bayern München og mér leið eins og einhver hefði rekið hníf í bakið á mér,“ sagði Mourinho um tilfinningar sínar á hliðarlínunni.

Mörkin úr leiknum í gær má sjá í spilaranum að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×