Innlent

Ögmundur vill svör um hleranir Bandaríkjamanna

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, segist munu ganga eftir því að bandarísk stjórnvöld svari því formlega hvort íslenskir stjórnmálamenn hafi verið hleraðir á undanförnum árum og ef svo hafi verið, þá hverjir og af hvaða tilefni.

Þetta segir Ögmundur í nýjum pistli á heimasíðu sinni þar sem hann segist einnig munu birta svör Bandaríkjamanna opinberlega.

Í samtali við Vísi segir Ögmundur greinilegt að reiði alda rísi mjög hratt í Evrópu sem og að mótmæli fari einnig rísandi í Bandaríkjunum. Hann telur viðbrögð Bandaríkjamanna linkuleg hingað til miðað við tilefnið.

Enginn véfengi að þessar njósnir hafi átt sér stað, ekki heldur Bandaríkjastjórn segir Ögmundur í pistlinum, en að myndin eigi eftir að skýrast nánar.

Ögmundur telur að utanríkisráðuneytið eigi að kalla formlega eftir svörum frá Bandaríkjunum, en hingað til hafi ráðuneytið aðeins lýst yfir andstöðu og áhyggjum í kjölfar fréttanna.

Þá minnir Ögmundur á að áður hafi komið fram að íslenskir ríkisborgarar hafi verið hleraðir af Bandaríkjamönnum sem hann segir gróf mannréttindabrot sem og brot á íslenskum lögum, þar á meðal stjórnarskrá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×