Innlent

Fær enga hjálp þó naglarnir standi út

Kristján Hjálmarsson skrifar
Eins og sjá má á myndinni standa naglarnir út á Lenu Margréti.
Eins og sjá má á myndinni standa naglarnir út á Lenu Margréti.
„Ég er búin að bíða eftir lækni hérna á slysó í einn og hálfan tíma með naglana úti,“ segir Lena Margrét Konráðsdóttir. „Það virðist sem enginn vilji taka ábyrgð á mér.“

Lena Margrét brotnaði illa á hendi fyrir um sex vikum þegar hún var úti að hlaupa og þurfti að setja nagla í hendina á henni.

Aðgerðin heppnaðist þó ekki betur en svo að tveimur vikum eftir að naglarnir voru settir í fóru þeir að stingast út. Að sögn Lenu Margrétar eru tvær vikur í að hún komist til bækunarlæknis. Naglarnir standa hins vegar langt út eins og sjá má á myndinni.

„Ég er búin að vera með annan fótinn á sjúkrahúsinu á Siglufirði og þeir ná varla á bæklunarlækni á Akureyri,“ segir Lena Margrét sem býr á Ólafsfirði. Pólskur læknir framkvæmdi aðgerðina en hann yfirgaf landið áður en Lena Margrét var útskrifuð af sjúkrahúsinu.

„Hann kemur ekki aftur fyrr en eftir tvær vikur. Ég fór á slysó í síðustu viku en var bara send heim því í læknabréfinu segir að ég eigi að vera með naglana í átta vikur. Læknirinn kemur ekki heim fyrr en um miðjan nóvember og það eina sem ég fæ að vita að enginn geti breytt þessu nema eini bækunarlæknirinn á Akureyri. Læknarnir mínir á Siglufirði hafa ekki náð í hann,“ segir Margrét Lena sem situr núna á slysó á Akureyri.



„Ég hringdi svo á bæklunardeild til að panta tíma hjá honum en þá neitaði ritarinn mér tíma og sagði að það yrði hringt í mig þegar læknirinn kæmi heim. Nú bíð ég bara eftir að komast inn,“ segir Lena Margrét.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×