Innlent

Jakkafatajóga: "Eykur vellíðan og afköst"

Hrund Þórsdóttir skrifar
Nú er engin afsökun fyrir því að hreyfa sig ekki því Eygló Egilsdóttir flakkar á milli vinnustaða og býður upp á svokallað jakkafatajóga. Eins og við fengum að kynnast hjá Saga Medica í dag, þá koma starfsmenn saman, til dæmis í kaffitímum, og gera vel valdar æfingar undir handleiðslu Eyglóar. „Tilgangurinn er að auka blóðflæði til vöðvanna og liðanna og upp í heilann, sem við notum mest í vinnunni og fólk upplifir að þetta eykur vellíðan og afköst,“ segir Eygló.

Þú byrjaðir á þessu í sumar, hvernig hafa viðtökurnar verið?

„Mjög góðar. Fólki líkar þetta mjög vel og reynslan hefur sýnt að hóparnir sem ég hef verið með, hafa haldið áfram jafnvel eftir að ég hætti að mæta til þeirra.“

Eygló er menntaður viðskiptafræðingur en fyrir nokkrum árum sagði hún upp starfi sínu í banka og náði sér í einkaþjálfararéttindi. Hún lumar á góðum ráðum fyrir fólk sem stundar mikla kyrrsetu. „Bara vera dugleg að standa upp og hreyfa sig og ekki gleyma að hreyfa augun, þau þreytast svo mikið við tölvuvinnu.“

Upplýsingar um Eygló og jakkafatajógað er að finna á Facebooksíðunni yogamedeyglo.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×