Innlent

Barnafjölskylda missir allt sitt

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Björn minnir á að slitanefndum bankanna beri að tryggja hámarks heimtur samkvæmt lögum. Hann segir að gjörningurinn í dag sé andstæður þeim lögum.
Björn minnir á að slitanefndum bankanna beri að tryggja hámarks heimtur samkvæmt lögum. Hann segir að gjörningurinn í dag sé andstæður þeim lögum. mynd/365
Barnafjölskylda missir allt sitt og Drómi hf. tapar meiru en nauðsynlegt er, skrifar Björn Steinbekk Kristjánsson framkvæmdarstjóri í grein sinni í Fréttablaðinu og á Vísi í dag, Drómi tapar peningum í dag.

Hann segir frá því í greininni að fasteignin hans, efri hæð hússins að Byggðarenda 8, verði boðin upp í dag. Það sé gert að beiðni Dróma hf., sem er hlutafélag sem innheimtir lán í eigu SPRON og Frjálsa fjárfestingarbankans í umboði slitastjórnar bankanna.

Björn segir frá því að hann hafi keypt fasteignina árið 2004 með láni frá Íbúðarlánasjóð og Íslandsbanka ásamt eigin fé. Hann segir að nauðsynlegar endurbætur á eigninni hafi kostað 10 milljónir sem eigendur settu í eignina. Árið 2007 hafi Íslandsbankalánið og framkvæmdirnar verið endurfjármagnað með láni frá Frjálsa fjárfestingarbankanum, samtals 19,6 milljónir króna. Eignin var þá metin á 45 milljónir króna. Á fyrsta og öðrum veðrétti hafi hvílt 33 milljónir.

Björn segir lánið hafa hækkað um 18 milljónir frá árinu 2004 og séu nú 51,5 milljónir króna.

Hann segist hafa boðið Dróma 6,5 milljónir til niðurgreiðslu á höfuðstól gegn því að Drómi lækkaði sína kröfu um 6,9 milljónir ásamt viðhaldi upp á 3 milljónir. Áhvílandi yrðu þá 38,6 milljónir í stað 51,5 miljónir. Því var hafnað.

„Drómi tapar pening og barnafjölskylda missir allt sitt“

Áætlað söluverð fasteignarinnar á markaði segir Björn vera 36,5 milljónir króna.

„Drómi tapar ekki bara peningum í dag af því að söluverð eignarinnar er þriðjungi lægra en áhvílandi lán og afskriftir því óumflýjanlegar, heldur líka vegna þess að söluverðið er mörgum milljónum lægra heldur en kröfuhöfum var boðið,“ skrifar Björn.

Björn minnir á að slitanefndum bankanna beri að tryggja hámarks heimtur samkvæmt lögum. Hann segir að gjörningurinn í dag sé andstæður þeim lögum.

„Það liggur fyrir að ég tók fullhá lán við þessi fasteignakaup miðað við þá þróun sem síðar varð. Þetta mál aftur á móti snýst ekki um mig, heldur kerfið sem feðraði Dróma; kerfi sem virkar ekki.“

Björn segir að greiðsluvilji og geta sé til staðar. Boð um bætur liggi á borðinu. Fyrir hvern er slitastjórn Dróma að vinna? spyr Björn. „Að flestu leyti fyrir sjálfa sig, enda er fólk þar með 40 þúsund krónur á tímann.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×