Innlent

Vegglistaverk í Fellunum afhjúpað

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Arkitektinn Theresa Himmer var valin til þess að gera vegglistaverk á gafl fjölbýlishússins Jórufell 2 til 12.
Arkitektinn Theresa Himmer var valin til þess að gera vegglistaverk á gafl fjölbýlishússins Jórufell 2 til 12.
Listasafn Reykjavíkur afhjúpaði síðastliðinn laugardag vegglistaverkið Birtingamynd eftir Theresu Himmer sem prýðir vegg fjölbýlishússins að Jórufelli 2 til 12 í Breiðholti.

Arkitektinn Theresa Himmer og myndlistakonan Sara Riel voru valdar til þess að gera veggmyndir á tvo stóra gafla í Fellahverfi.

Sara Riel vann í sumar að vegglistaverki á Asparfelli 2 til 12 og verður það tilbúið næsta vor.

Borgarráð samþykkti tillögu borgarstjóra um verkefnið fyrr á þessu ári, en þar kom meðal annars fram að: „Listaverk í opinberu rými geti haft mjög jákvæð áhrif á umhverfið, fegrað það, vakið umræðu og skapað almennan áhuga á myndlist.“

Listasafn Reykjavíkur hefur umsjón með verkefninu.  Ákveðið var að láta gera tvær stórar veggmyndir á gafla tveggja hárra fjölbýlishúsa í Efra-Breiðholti. Listasafn Reykjavíkur hefur umsjón með verkefninu og efndi til lokaðrar samkeppni um val á listamönnum. Dómnefndin var skipuð fulltrúum frá hverfisráði Breiðholts, íbúasamtökunum Betra Breiðholti, hverfisráði Breiðholts, ungmennaráði Breiðholts, Félagsbústöðum, húsfélagi Asparfells og innkaupanefnd Listasafns Reykjavíkur.

Theresa hefur unnið að verkinu á Jórufelli 2 til 12, hún ljósmyndaði steypu bakvið klæðningu hússins í gegnum smásjá og prentaði þau síðan á klæðninguna með tækni svipaðri silkiþrykki. Steypuagnirnar taka á sig fullkomlega óhlutbundin form við stækkunina og gætu til dæmis  verið loftsteinar, malargrjót eða plánetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×