Innlent

Óvissa um Reykjavíkurflugvöll hamlar uppbyggingu þjónustu

Heimir Már Pétursson skrifar
"Ég hef alltaf sagt að ef Reykvíkingar vilja ekki flugvöllinn værum við Suðurnesjamenn algerlega tilbúnir til að bjóða okkar aðstöðu upp á Keflavíkurflugvelli.“
"Ég hef alltaf sagt að ef Reykvíkingar vilja ekki flugvöllinn værum við Suðurnesjamenn algerlega tilbúnir til að bjóða okkar aðstöðu upp á Keflavíkurflugvelli.“
Ragnheiður Elín Árnadótttir ráðherra ferðamála telur mikilvægt að gæta jafnræðis þjónustuaðila í innanlandsfluginu og að aðstaða þeirra verði bætt. En móðurfélag Flugfélags Íslands, Icelandair Group, var aðili að samkomulagi ríkis og borgar um framtíð Reykjavíkurflugvallar sem undirritað var á föstudag. Fulltrúar annarra félaga áttu þar enga fulltrúa.

Ragnheiður Elín fagnar samkomulaginu og segir að með því hafi alla vega verið lengt í því tímabili sem Reykjavíkurflugvöllur fái að vera í Vatnsmýrinni. Best hefði þó verið að eyða óvissu um framtíð flugvallar í Reykjavík þar eða annars staðar þannig að hægt væri að hefja uppbyggingu til framtíðar.

„En ég hef alltaf sagt að ef Reykvíkingar vilja ekki flugvöllinn værum við Suðurnesjamenn algerlega tilbúnir til að bjóða okkar aðstöðu upp á Keflavíkurflugvelli,“ segir ráðherra.

Björgólfur Jóhannsson forstjóri Icelandair Group sagði eftir undirritun samkomulagsins sem tryggir veru Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýri til ársins 2022,  að félagið hefði ákveðinn rétt á flugvallarsvæðinu vegna langrar veru sinnar þar. Félagið myndi sækjast eftir að fá að bæta aðstöðu sína á flugvellinum. Ráðherra segir að á meðan flugvallarstarfsemi sé í Reykjavík verði að tryggja jafnræði þjónustuaðila.

„Hvort sem það er Flugfélag Íslands, flugfélagið Ernir eða aðrir rekstraraðilar á Reykjavíkurflugvelli og farþegar sem þarna fara um,“ segir Ragnheiður Elín. En væri þá ekki rétt að Ísavia sem rekur flugvöllinn byggði þá aðstöðu og tryggði öllum jafnan aðgang?

„Jú, en þeim til vorkunar þá er kannski ekki skynsamlegt að fara í gríðarlega kostnaðarsamar fjárfestingar þegar óvissan um staðsetninguna er eins og hún er í dag,“ segir Ragnheiður Elín Árnadóttir ráðherra ferðamála.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×