Innlent

Dauft yfir íslensku efnahagslífi

Jóhanna Margrét Einarsdóttir skrifar
Samkvæmt nýrri hagspá Alþýðusambands Íslands er dauft yfir íslensku efnahagslífi.  Hagvöxtur  verður lítill á næstunni og  ekki næst að vinna bug á atvinnuleysi eða ná sama kaupmætti og fyrir hrun.

Hagdeild Alþýðusambandsins spáir 1,7 prósenta hagvexti  í ár, litlu meiri hagvexti á næsta ári eða 2,2 prósentum og árið 2015 gerir spáin ráð fyrir 2,5 prósenta hagvexti. 

„Við erum að spá svona ákveðnum doða í efnahagslífinu og það er hætta á stöðnun.  Stóra vandamálið er að það eru allt of litlar fjárfestingar  framundan,“ segir Ólafur Darri.

Gert  er ráð fyrr að fjárfestingar dragist saman um tæp 9 prósent á þessu ári, en vaxi um 14 prósent á næsta ári og um rúm 16 prósent árið 2015.  Skýrist þróunin að mestu af minni fjárfestingu atvinnuveganna en ekki er gert ráð fyrir að byggt verði álver í Helguvík á spátímanum.

Hins vegar er gert ráð fyrir framkvæmdum á Bakka við Húsavík , einnig við fangelsi á Hólmsheiði, Vaðlaheiðargöng, Norðfjarðargöng auk almennra samgöngu mannvirkja. Ólafur Darri segir að stjórnvöld verði að skýra marga þætti í efnahagslífinu svo sem hvað felist í róttækustu aðgerðum í þágu skuldsettra heimila í heiminum.

Staða á vinnumarkaði hefur batnað töluvert  þó er ekki búist við mikilli hjöðnun atvinnuleysis á tímabilinu.

Ljósu punktarnir eru að skuldastaða heimilanna hefur batnað  og dregið hefur úr skuldavandanum. Bætt staða á vinnumarkaði og aukinn kaupmáttur munu leiða til þess að einkaneysla eykst.

Síðustu fjögur ár hafi samneyslan dregist saman nú séu horfur á hægum viðsnúningi en erfið fjárhagsstaða ríkis og sveitarfélaga setji vextinum mörk. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×