Enski boltinn

Chelsea sló Arsenal út á Emirates - sjötti sigurinn í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
César Azpilicueta fagnar marki sínu.
César Azpilicueta fagnar marki sínu. Mynd/AP
Chelsea sló Arsenal út úr sextán liða úrslitum enska deildabikarsins þegar lærisveinar Jose Mourinho unnu 2-0 sigur á Emirates-leikvanginum í kvöld.

Þetta er í fyrsta sinn frá tímabilinu 2002 til 2003 þar sem Arsenal-liðið kemst ekki í átta liða úrslit deildabikarsins.

César Azpilicueta og Juan Manuel Mata skoruðu mörk Chelsea en liðið hefur nú unnið sex leiki í röð í öllum keppnum og virðist vera kominn á skrið undir stjórn Portúgalans.

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, gerði átta breytingar á liðinu sem vann Crystal Palace á laugardaginn en það voru bara þeir Aaron Ramsey, Santi Cazorla og Laurent Koscielny sem "héldu" sæti sínu.

Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, gerði enn betur því það var bara Gary Cahill sem hélt sæti sínu frá liðinu sem vann Manchester City á sunnudaginn.

Annan leikinn í röð fengu Chelsea-menn mark á silfurfati frá mótherjum sínum. César Azpilicueta komst þá inn í skallasendingu bakvarðarins Carl Jenkinson aftur til Lukasz Fabianski í markinu. Azpilicueta þakkaði pent fyrir og kom Chelsea í 1-0 á 25. mínútu.

Juan Manuel Mata bætti við öðru marki Chelsea á 66. mínútu með frábæru skoti fyrir utan teig eftir að Willian skallaði boltann til hans.

Mesut Ozil og Olivier Giroud komu báðir inná í seinni hálfleiknum en það

dugði ekki til og Chelsea landaði sigri og sæti í átta liða úrslitum keppninnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×