Fótbolti

Kolbeinn: Vonandi mæta Íslendingar úr nágrenninu

Kolbeinn Tumi Daðason í Ósló skrifar
„Mér líst frábærlega á leikinn. Ég er spenntur eins og held ég allir aðrir. Vonandi komumst við vel frá verkefninu sem bíður á morgun.“

Þau voru fyrstu orð Kolbeins Sigþórssonar, framherja íslenska liðsins, við blaðamann í morgun. Hann var hinn hressasti, einbeittur og telur sjálfstraustið í liðinu mjög mikið um þessar mundir.

„Vonandi fáum við þann stuðning sem við höfum verið að bíða eftir. Fólk er að mæta sem er ánægjulegt. Vonandi koma fleiri úr nágrenninu,“ sagði markaskorarinn.

„Leikmenn eru meðvitaðir um hvað þetta er mikilvægur leikur. Við megum ekki fara fram úr sjálfum okkur. Þetta verður ekki auðvelt. Það hefur ekki gerst oft að við höfum unnið hér. Ef við eigum góðan leik á morgun eigum við að vinna Norðmennina.“

Kolbeinn segir leikmenn reyna að halda ró sinni en auk þess séu landsliðsþjálfararnir duglegir að minna þá á að halda einbeitingu.

„Þeir Heimir minna okkur vel á að vera á jörðinni, halda ró okkar og pæla ekki of mikið í hvað sé framundan eftir leikina. Við einbeitum okkur að þessum leik sem er mikilvægast,“ segir Kolbeinn.

Kolbeinn hefur skorað tólf mörk í átján landsleikjum sem er ótrúleg tölfræði og raunar einstök hjá framherja í fótboltanum í dag. Hann hefur skorað í fjórum landsleikjum í röð en hefur hann á tilfinningunni að hann muni skora á morgun?

„Sú tilfinning kemur kannski meira á leikdegi. Þegar vel gengur og þú ert að skora þá hefurðu góða tilfinningu. Ef hún er til staðar geturðu verið bjartsýnn fyrir leikinn.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×