Innlent

Pólitíkin: Erfið staða Íbúðalánasjóðs kemur engum á óvart

Höskuldur Kári Schram skrifar
Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, sagði í viðtali við Bloomberg fréttastofuna í vikunni að starfsemi Íbúðalánasjóðs verði ekki bjargað og tapið muni að lokum lenda á skattgreiðendum.

Mikil óvissa hefur ríkt um stöðu Íbúðalánasjóðs en frá árinu 2010 hefur ríkissjóður lagt rúma 40 milljarða í sjóðinn til að mæta erfiðri fjárhagsstöðu. Á næsta ári er gert ráð fyrir því að sjóðurinn fái 4,5 milljarða frá ríkinu.

Eygló Harðardóttir, félagsmálaráðherra, gerir ekki athugasemdir við ummæli Unnar og segir að erfið staða sjóðsins eigi ekki að koma neinum á óvart. Eygló er gestur í þættinum Pólitíkin á Vísir.is

„Staða sjóðsins er erfið og það hefur legið fyrir í töluverðan tíma. Viðbrögð markaðarins við ummælum forstjóra Fjármálaeftirlitsins endurspegluðu það. Menn vita ósköp vel hvernig staðan er hjá sjóðnum. Við erum ekki sátt við það að þurfa að leggja sjóðnum til allt að því fimm milljarða árlega. Það er verið að leita leiða til að gera viðskiptamódelið sjálfbært. Við erum búin að skipa hóp sem snýr að framtíðarskipan húsnæðismála, hvernig við viljum sjá það fyrir okkur til framtíðar, og síðan samhliða því er verið að fara yfir það sem snýr að fortíðarvandanum. Ég geri engar athugasemdir við orð forstjóra FME. Áður fyrr var það gagnrýnt að þeir sem voru að sinna eftirlitshlutverki væru ekki að koma á framfæri upplýsingum til stjórnvalda. Við höfum fundað með FME og farið yfir stöðu sjóðsins og ég tel að FME sé bara að sinna sínum skyldum,“ segir Eygló.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×