Innlent

Vilhjálmur undrast orð fjármálaráðherra

Hrund Þórsdóttir skrifar
Bjarni Benediktsson og Vilhjálmur Birgisson.
Bjarni Benediktsson og Vilhjálmur Birgisson. Mynd/Stefán
Ríkisstjórnin verður ekki langlíf ef ekki verður staðið við kosningaloforð um lausn á skuldavanda heimilanna, segir formaður Verkalýðsfélags Akraness. Hann undrast ummæli fjármálaráðherra síðustu daga um að ekkert muni liggja fyrir í málinu á þessu ári og segir þögn forsætisráðherra ærandi.

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, hefur undanfarna daga sagt að ekkert muni liggja fyrir hvað varðar leiðréttingu á forsendubresti heimilanna fyrir áramótin. Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, sem situr í sérfræðingahópi forsætisráðherra um afnám verðtryggingar segir þessar yfirlýsingar óheppilegar og að Bjarni tali málið niður. Bjarni hefur sagst vonast til að sérfræðingahópur um skuldavanda heimilanna skili tillögum fyrir árslok en Vilhjálmur segir hópinn eiga að skila þeim í síðasta lagi í lok næsta mánaðar.

„Það liggur alveg fyrir hvert er aðal kosningaloforið þessarar ríkisstjórnar, það er að afnema hér verðtryggingu á neytendalánum og leiðrétta skuldir heimilanna,“ segir Vilhjálmur. „Ég er sannfærður um það að almenningur verði upplýstur hvernig að þessum málum verði staðið og hversu lengi við þurfum að bíða. Það liggur fyrir að ef menn standa ekki við kosningaloforðin þá lifir þessi ríkisstjórn ekki lengi.“

Vilhjálmur segir ennfremur undarlegt að fjármálaráðherra tjái sig ítrekað á þessum nótum þar sem málið sé á forræði og ábyrgð forsætisráðherra. Ummæli Bjarna valdi Framsóknarflokknum verulegum vandræðum enda séu þau á skjön við ummæli forsætisráðherra og loforð framsóknarmanna.

„Forsætisráðherra hefur talað skýrt um þessi mál og því ekki mikill samhljómur á milli hans og fjármálaráðherra,“ segir Viljálmur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×