Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: ÍA - KR 3-1 | Botnliðið vann Íslandsmeistarana

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Mynd/Pjetur
Það var enginn meistarabragur á Íslandsmeisturum KR er þeir sóttu botnlið ÍA heim. Frekar leiðinlegum leik lauk með tveggja marka sigri ÍA.

Það var ákveðið klukkutíma fyrir leik að spila leikinn innandyra þó svo Akraneshöllin uppfylli ekki skilyrði fyrir leik í Pepsi-deild karla. Leikurinn skipti engu máli og því virtust allir vera sammála um að reyna að rusla þessum leik af. KR orðið meistari og ÍA fallið.

Fyrri hálfleikur féll í gleymskunnar dá um leið og Magnús Þórisson flautaði til hálfleiks. Það gerðist svo gott sem ekkert í honum. Þrjú hálffæri sem varla tekur að minnast á.

Skagamenn voru ívið líflegri í upphafi síðari hálfleiks og það var nokkuð gegn gangi leiksins að KR komst yfir.

Klaufagangur hjá Ármanni Smára. Ætlaði að negla fram en skaut beint í Gary Martin sem komst fyrir vikið einn í gegn og kláraði með stæl gegn sínu gamla félagi.

Skagamenn jöfnuðu frekar sanngjarnt um 20 mínútum fyrir leikslok. Haukur Heiðar braut þá klaufalega á Hafþóri Ægi. Jón Vilhelm þakkaði pent fyrir með því að skora beint úr spyrnunni. Glæsileg spyrna.

Varamaðurinn Jorge Garcia kom svo ÍA yfir rétt fyrir leikslok. Annar varamaður, Alexander Már Þorláksson, var þá nýkominn inn á. Hann vann skallabolta í teignum og lagði smekklega á Garcia sem skoraði auðveldlega.

Botnliðið gekk svo frá leiknum gegn meisturunum tveim mínútum síðar. Skyndisókn þar sem þeir voru þrír gegn einum. Andri lék á Gunnar Þór og lagði boltann huggulega í fjærhornið. Magnaður endir hjá heimamönnum og skiptingar Þorvalds gulls ígildi.

Leikurinn var annars mjög jafn og hefði getað fallið hvoru megin sem var. Heimamenn voru grimmari undir lokin og það skilaði þeim sigri. Liðið var vel skipulagt og gaf ekki mörk færi á sér.

KR-ingar voru lengstum ívið sterkari aðilinn en gáfu of mikið eftir. Voru hreinlega kærulausir í mörkunum tveimur undir lokin og fóru því réttilega stigalausir heim.

Rúnar: Engin afsökun að hafa farið inn í hús

"Mér fannst við stjórna leiknum þar til þeir jafna. Við vorum algjörlega með tök á leiknum og hefðum átt að vera búnir að gera út um hann," sagði Rúnar Kristinsson, þjálfari KR.

"Við brjótum klaufalega af okkur fyrir utan vítateig og þeir jafna. Þá ýtum við okkur framar á völlinn til þess að reyna að klára leikinn og fáum tvö í andlitið. Við töpum mjög illa."

Rúnar segir að það hafi ekki verið mikið mál að peppa sína menn upp fyrir leikinn.

"Við vorum klárir í slaginn og að berjast fyrir stigunum. Það hafði engin áhrif að fara inn í hús og það var engin afsökun að við höfum spilað þar," sagði Rúnar og bætti við að það hafi enginn viljað fresta.

"Það er alltaf leiðinlegt að tapa fótboltaleikjum. Við ætlum að reyna að klára mótið með sigri um helgina. Það er alltaf skemmtilegra."

Þorvaldur: Vil halda áfram að þjálfa ÍA

"Það er alltaf gaman að vinna fótboltaleiki og við erum að sjálfsögðu kátir eftir þennan sigur þó svo hann gefi ekki mikið úr því sem komið er," sagði Þorvaldur Örlygsson, þjálfari ÍA.

"Lokakaflinn var mjög sterkur hjá okkur. Við jöfnum og klárum þetta svo virkilega vel. Við viljum ljúka tímabilinu með sæmd. Ég er ánægður með drengina í dag sem lögðu sig alla fram í leiknum," sagði Þorvaldur en hvernig fannst honum að spila inni?

"Það var mjög sérstakt að spila inni. Það vildu allir klára að spila þennan leik í dag."

Þorvaldur segist hafa áhuga á því að stýra ÍA-liðinu áfram og hjálpa því að komast upp í efstu deild á nýjan leik.

"Ég hef áhuga á því en þetta er hvorki staður né stund til að ræða það. Við klárum þessa viku og sjáum svo til hvernig staðan verður."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×