Innlent

Flugvöllurinn eitt af stóru málunum fyrir kosningarnar

Heimir Már Pétursson skrifar
Friðrik Pálsson hótelhaldari er einn þeirra sem stendur fyrir undirskriftasöfnuninni.
Friðrik Pálsson hótelhaldari er einn þeirra sem stendur fyrir undirskriftasöfnuninni.
Hátt í þrjátíu þúsund manns hafa á undanförnum fjórum sólarhringum skrifað undir áskorun þess efnis að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram í Vatnsmýri. Að óbreyttu skipulagi verður aðeins ein flugbraut eftir í Vatnsmýri eftir þrjú ár. Einn forsprakka undirskriftanna segir flugvöllinn verða eitt aðal kosningamálið fyrir borgarstjórnarksoningarnar næsta vor.

Samkvæmt gildandi skipulagi verður tveimur af þremur flugbrautum Reykjavíkurflugvallar lokað árið 2016 eða á miðju næsta kjörtímabili borgarstjórnar. Flugvöllurinn á svo með öllu að vera horfinn árið 2024.

Síðast liðinn föstudag hófst undirskriftasöfnun á Netinu þar sem hvatt er til þess að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýri og fyrir hádegi höfðu um 27 þúsund og fimm hundruð manns skrifað undir áskorunina.

Friðrik Pálsson hótelhaldari er einn þeirra sem stendur fyrir undirskriftasöfnuninni. Hann segir undirskriftunum fjölga hraðar en hann vonaðist eftir, en ríflega 80 prósent landsmanna vilja flugvöllinn áfram í Vatnsmýrinni samkvæmt nýjustu könnunum.

„Hins vegar hafa viðbrögðin, bæði í símtölum, tölvupóstum og svo framvegis verið þannig að við erum sannfærðir um að þetta var mjög tímabært að gera þetta. Fólk er mjög þakklátt að mega taka þátt í því að fá að segja skoðun sína á þessu máli,“ segir Friðrik. Það megi jafnvel orða það þannig að fólki hafi verið orðið mál.

Friðrik segir ekki útilokað að koma í veg fyrir að brautum flugvallarins verði fækkað eftir þrjú ár í eina og síðan lokað alveg eftir ellefu ár. Ef fram komi nógu margar athugasemdir hljóti yfirvöld að þurfa að taka þær til greina.

„Og í öðru lagi eru kosningar framundan í borginni og ég get ekki ímyndað mér annað en þetta verði eitt af stóru málunum bæði í prófkjörum og kosningunum sjálfum. Þetta er því líkt stór mál fyrir borgina sjálfa. Þetta skiptir meira máli fyrir Reykvíkinga held ég en margir þeirra gera sér grein fyrir. Alla vega meira en mér finnst borgarstjórnin gera sér grein fyrir,“ segir Friðrik.

Ef ekki verði horfið frá þessum áformum fyrir kosningar eins og menn hljóti að vona, þá verði þetta eitt af stóru kosningmálunum í borgarstjórnarkosningunum næsta vor. Allir sem hafi vit á þessum málum segi að innanlandsflug verði stórkostlega skert með aðeins einni flugbraut sem og öryggi vallarins sem sjúkravallar einnig. Engar líkur séu á að byggður verði nýr innanlandsflugvöllur. Friðrik segir flugvöllinn hins vegar snúast um meira en innanlandsflugið eins mikilvægt og það sé.

„Við megum ekki gleyma því að þetta snýst um allt annað. Þetta snýst um þá þjónustu, bæði sem landsbyggðarfólk þarf að sækja til Reykjavíkur og Reykvíkingar eru að sækja út á land. Og í stórum stíl er þetta samgöngumiðstöð landsins alls og þetta er ekki einkamál einhverra nokkurra aðila sem telja sig vilja byggja endilega á þessum tiltekna stað,“ segir Friðrik Pálsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×