Innlent

Burðavirki Elliðaárbrúar risin

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Brúarvirkin eru 18 metra há.
Brúarvirkin eru 18 metra há. mynd/Reykjavíkurborg
„Hjólreiðamenningin mun batna mikið með tilkomu þessara nýju brúa yfir Elliðaárósana,“ segir Jón Halldór Jónasson, upplýsingafulltrúi hjá Reykjavíkurborg.

Áætlað er að 20. september næstkomandi verði tvær nýjar brýr yfir ósana tilbúnar. Auk þess er verið að gera nýja stíga um Elliðaárdalinn. Stígarnir koma til með að bæta umferð gangandi og hjólandi yfir Elliðaár talsvert.

Burðarvirki brúanna hafa nú þegar risið. Göngu og hjólabrautir eru aðskildar og umferðaröryggi á að batna. Auk þess að vera öruggari er nýja leiðin jafnframt greiðari, styttri og þægilegri en þær leiðir sem hægt er að fara í dag.

Jón Halldór segir að þeir sem að hjóla daglega úr Grafarvoginum og hinum megin frá Elliðavoginum hlakki mikið til að fá nýju leiðina.

Brýrnar eru mikið mannvirki og burðarvirkið er 18 metra hátt og brýrnar eru hvor um sig um 36 metrar á lengd.

Jón Halldór kveður nýju stígana verða mikla samgöngubót og vonast til að þessar nýju leiðir verði til þess að kveikja í einhverjum, að hjóla langt inn í veturinn. Leiðirnar verða snjóhreinsaðar og ruddar í vetur. Hjólareiðar þurfa því ekki að verða bundnar við sumartímann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×