Innlent

Líkamsárás við Bæjarins bestu - Menningarnótt fór þó vel fram.

Hrund Þórsdóttir skrifar
Mikill mannfjöldi var í miðborginni í gær.
Mikill mannfjöldi var í miðborginni í gær. Mynd/Daníel
Menningarnótt fór vel fram að mestu leyti og var hún með þeim rólegri, að því er fram kemur í tilkynningu frá lögreglu. Þrátt fyrir mikinn mannfjölda í miðborginni gekk vel að rýma hana eftir að flugeldasýningu lauk.

Lítið var um útköll tengd hátíðinni og segir lögreglan veður hafa átt sinn þátt í að flestir fóru heim þegar hefðbundinni dagskrá lauk. Þá vísar hún í gott forvarnarstarf fyrr um kvöldið en frá klukkan 21.00 var tekið áfengi af um 25 ungmennum og sex voru flutt í athvarf vegna ölvunar.

Nokkur erill var þó í miðborginni og voru sjö látnir gista fangageymslur vegna annarlegs ástands. Sex minniháttar fíkniefnamál komu upp í nótt, en voru þau öll afgreidd á vettvangi.

Þá var 19 ára kona stöðvuð í Skúlagötu um tvöleytið þar sem hún ók bifreið undir áhrifum fíkniefna. Um miðja nótt réðust þrír menn að öryggisverði í verslun 10-11 við Barónsstíg en þeir fóru svo af vettvangi og sakaði öryggisvörðinn ekki.

Loks var neyðarlínu tilkynnt um líkamsárás við Bæjarins bestu í Tryggvagötu um klukkan fjögur. Maður var fluttur slasaður á slysadeild með sjúkrabifreið en frekari upplýsingar liggja ekki fyrir um líðan hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×