Innlent

Alltaf að slasa sig en stefnir á atvinnumennsku

Hrund Þórsdóttir skrifar
Lexgames stóð fyrir mótinu í samvinnu við Smáralindina. „Við eigum fullt af efnilegum krökkum. Það eru um 60 keppendur hérna í dag í þremur mismunandi aldursflokkum. Við erum bara að búa til góðan efnivið fyrir framtíðina í jaðarsportinu,“ segir Alexander Kárason, skipuleggjandi keppninnar.

Keppnin var ætluð báðum kynjum en engar stelpur mættu til leiks í dag. „En það eru stelpur að „skeita“ alveg á fullu og það eykst bara. Þetta er flott framtíð, góðir krakkar og margir krakkar sem munu keppa erlendis,“ segir Alexander.

Þegar fréttamann bar að garði var verið að veita verðlaun í flokki 10 til 15 ára og Sigfinnur Böðvarsson stóð uppi sem sigurvegari. Hann hefur stundað hjólabrettamennsku frá fjögurra ára aldri og hefur keppt bæði innanlands og utan. Hann æfir aðallega á Ingólfstorgi og í Hörpunni en segir mikinn skort á góðri æfingaaðstöðu.

Og ertu aldrei hræddur að gera öll þessi trix?

„Jú, ég dett mjög oft úr axlarlið og er búinn að fótbrjóta mig þrisvar og eitthvað,“ segir hann.

En þú heldur samt áfram?

„Já, auðvitað,“ svarar hann brosandi.

Hann stefnir á atvinnumennsku í íþróttinni og segir Three Sixty Flip skemmtilegasta trikkið. Í meðfylgjandi myndbandi má sjá hann og fleiri hjólabrettakappa sýna listir sínar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×