Innlent

„Reykjavík ætti að ganga fram með góðu fordæmi“

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Hildur Sverrisdóttir varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins
Hildur Sverrisdóttir varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins Mynd/Stefán
Óútskýrður launamunur kynjanna er hæstur í Reykjavík eða 8,5%. Sami launamunur í öðrum sveitarfélögum er 6,4%, þetta kemur fram í bókun sjálfstæðismanna í borgarráði í dag eftir þau höfðu kynnt sér niðurstöður launakönnunar Bandalags háskólamanna (BHM).

„Reykjavík kemur mun verr út úr óútskýrðum launamun en önnur sveitarfélög. Það er óafsakanlegt og Reykjavík sem höfuðborg landsins ætti að ganga fram með góðu fordæmi,“ segir Hildur Sverrisdóttir varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.

Hildur segir að vissulega sé hægt að bera mikla virðingu fyrir áherslum meirihlutans í borginni á mannréttindamálum út í heimi, en þetta sé mikilvægt mannréttindamál í Reykjavík sem er þeirra hlutverk að passa upp á.

„Í byrjun kjörtímabils var settur starfshópur sem átti að koma með tillögur til að stemma stigu við þessum launamun og við skiluðum tillögum árið 2011 en síðan þá hefur ekkert spurst til þeirra. Eitthvað af tillögunum hafa ratað í aðrar áætlanir og skýrslur um jafnrétti en það hefur verið minna um nauðsynlegt eftirlit og aðgerðir,“ segir Hildur.

Hún segir það alvarlegt að hið opinbera komi verr út úr þessum könnunum en einkaaðilar. „Hið opinbera ætti kannski að byrja að taka til heima hjá sér áður en farið er að segja einkaðilum til þegar kemur í ljós að þeir standa sig betur á þessum vettvangi en hið opinbera."
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.