Innlent

Gleðigangan fer fram í dag

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Hinsegin dagar standa nú yfir í fimmtánda sinn. Sem fyrr nær hátíðin hámarki sínu með árlegri gleðigöngu sem hefst klukkan tvö í dag.

Fjölmargir einstaklingar og hópar setja saman atriði í gleðigöngunni. Þáttakendur í Gleðigöngunni stilla sér upp á vagna sína á Vatnsmýrarvegi, austan BSÍ, klukkan tólf í dag. Lagt verður svo af stað stundvíslega tvö í voldugri gleðigöngu eftir Sóleyjargötu, Fríkirkjuvegi og Lækjargötu og fram hjá Arnarhóli.

Árið 2011 mættu rúmlega hundrað þúsund manns í Gleðigöngu hinsegin daga, og á síðasta ári komu yfir 70 þúsund manns í gönguna. Eva María Þórarinsdóttir Lange, formaður hinsegin daganna, segir veðrið skipta miklu máli í þessu samhengi og býst við margmenni í dag, enda spáin prýðileg.

Að göngu lokinni tekur við hátíðardagskrá við Arnarhól sem stendur til klukkan hálf sex í kvöld. Á stóra sviðinu undir hólnum troða upp íslenskir skemmtilkraftar og hljómsveitir, en útitónleikarnir við Arnarhól hafa verið fjölsóttasta útihátíð í Reykjavík síðustu ár.

Von er á miklum mannfjölda í miðborginni og verða götur lokaðar í nágrenni gönguleiðar og hátíðarsvæðis á meðan á dagskránni stendur. Vegfarendum er bent á að kynna sér þjónustu strætó og nýta sér bílastæðahús í miðborginn

Ert þú á leiðinni í gönguna? Taktu myndir í miðbænum, birtu á Instagram og merktu myndina með #visir_lifid.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×