Innlent

Sérfræðingar þjálfa starfsmenn á bráðageðdeild

Boði Logason skrifar
Þrír erlendir sérfræðingar í bráðageðhjúkrun hafa að undanförnu þjálfað starfsfólk á deild 32C á Landspítalanum áður en ný bráðageðdeild opnar eftir rúma viku. Einn af þeim segir að deildin eigi eftir að bæta þjónustu við geðsjúka.

Þetta er í fyrsta skiptið sem bráðageðdeild opnar hér á landi en stefnt er á að opna hana 19. ágúst næstkomandi. Þegar fréttastofa leit við í dag var nóg að gera hjá iðnaðarmönnum við að bora og skrúfa.

Andy Johnston er skoskur sérfræðingur í geðhjúkrun sem hefur unnið mikið í Bretlandi síðustu ár. Hann, ásamt tveimur öðrum, hefur verið starfsfólki spítalans innan handar síðustu vikur, bæði við hönnun deildarinnar sem og við þjálfun starfsfólks.

„Ég og tveir kollegar mínir komum hingað til að þjálfa heilbrigðisstarfsfólkið, lækna, hjúkrunarfræðinga, sálfræðinga, iðjuþjálfa o.s.frv. Við höfum þjálfað þau og hjálpað þeim að þróa þjónustuna bráðageðdeildinni," segir Andy.

Hann segir að mikil áhersla hafi verið lögð á að umhverfið sé gott á deildinni.

„Ef þú lítur í kringum þig sérðu hvernig þetta umhverfi hefur verið þróað. Það eru stór, opin svæði. Það er mjög öruggt. Það er gott aðgengi að náttúrulegri dagsbirtu og gott að fylgjast með. Frá miðju deildarinnar blasa allir gangarnir við."

Hann segir að þjónusta við geðsjúka hér á landi sé góð.

„Ég held að þjónustan sé mjög góð á Íslandi. Þessi deild mun bæta enn frekar þá þjónustu sem fyrir er. Mikil vinna hefur verið lögð í að styðja þessa nýju þróun."

En hefur hann trú á því að það takist að opna deildina eftir níu daga?

„Starfsfólkið er tilbúið. Ég held að stofnunin sé tilbúin og vonandi verður byggingin líka tilbúin þann 19."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×