Innlent

Náðust á myndband við að leggja Ingólfstorg í rúst

María Lilja Þrastardóttir skrifar
Lögreglan hefur fengið ábendingu um skemmdarverkin á torginu í nótt.
Lögreglan hefur fengið ábendingu um skemmdarverkin á torginu í nótt. Skjáskot úr myndbandinu
Fjöldi fólks hefur deilt myndbandi af hópi manna sem eyðilögðu útistóla og borð við Ingólfstorg í nótt. Það er myndlistakonan Kitty Von-Sometime sem náði skemmdarvörgunum á myndbandið.

Myndbandið má sjá hér fyrir neðan.

Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, segir á Twitter-síðu sinni í dag að lögreglan hafi fengið ábendingu um skemmdarverkin á Ingólfstorgi.

Pálmi Freyr Randversson, borgarhönnuður hjá Reykjavíkurborg segir málið sorglegt. En hann er í forsvari fyrir verkefnið Torg í biðstöðu innan borgarinnar.

„Þetta er hrikalega sorglegt. Nú er þetta á borði lögreglu og það er lítið sem við hjá borginni getum aðhafst. Borgin veitti styrk uppá hálfa milljón í verkefnið og þetta hefur gengið vel og vakið mikla athygli og ánægju. Mér finnst þetta því mjög leiðinlegt," segir Pálmi.

Hann segir jafnframt að ákveðinn hópur virðist sjá framtakinu allt til foráttu.

„Við höfum reynt að semja við þann hóp en það hefur lítið gengið. Þau vilja hafa aðra starfsemi þarna á torginu," segir Pálmi.

Spurður hvort að sá hópur sem hann á við sé hjólabrettafólk segir hann það vera svo.

„Það er ömurlegt ef að sá hópur er farinn að ganga svona fram."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×