Innlent

Skemmdarvargarnir handteknir strax í nótt

Ungu mönnunum sem lögðu Ingólfstorg í rúst var sleppt eftir yfirheyrslur hjá lögreglu. Þeir segjast óánægðir með yfirgang borgaryfirvalda gegn brettafólki en brettafólk vill ekki láta bendla þá menningu við skemmdarverkin.

Segja má að brettafólk í Reykjavík sé klofið. Þannig vill Ársæll Þór Ingvarsson brettamaður meina að það sé með ólíkindum að skemmdarverk af þessu tagi séu alltaf tengd brettafólki:

„Veit eiginlega ekki hvað ég á að segja, bara svo stórkostlegt hvað fólk tengir alltaf skemmdarverk á Ingólfstorgi við brettafólk, sem meikar lítinn sens þar sem Ingólfstorg hveur verið heimili brettafólks síðan það var byggt. Saga brettasenurnnar byrjar á torginu af alvöru og því berum við mjög mikla virðingu fyrir þessu svæði.“

Ársæll, sem einnig gengur undir nöfnunum Addi Intro og Intro Beats, segist enn fremur ekki kannast við andlitin á umræddu myndbandi en drengirnir á því sögðust í samtali við blaðamann Vísis vera brettamenn og hafa gengið berserksgang í nótt til að mótmæla því að borgin hafi þrengt að athafnasvæði brettafólks á Ingólfstorgi með því að koma þar fyrir blómakerum og stólum.

Í fréttum Stöðvar 2 í kvöld verður nánar fjallað um málið en drengirnir sem voru handteknir í nótt voru mjög ölvaðir. Í samtali við blaðamann sögðust þeir sjá eftir öllu saman í dag en ítreka að vera mjög ósáttir við borgaryfirvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×