Innlent

"Þetta er sexí það er það sem þetta er“

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
„Þetta er sexí það er það sem þetta er,“ segir Tyrfingur Tyrfingsson um þann heiður sem honum var sýndur í dag, en hann var valinn næsta leikskáld leikritunarsjóðs Borgarleikhússins.

„Þetta er svolítið sexí bæði af því að ég þekki til uppi í Borgarleikhúsi og þar er fullt af flottu fólki sem mig langar til þess að vinna með. En líka vegna þess að þetta verður flott leikár núna.“

Hann segir þetta í raun vera með flottari leikárum sem hann hefur séð, en kynning Borgarleikhússins á leikári sínu fór fram í dag. „Geðveik klassík með flottum leikstjórum og líka splunkuný verk. Það eru teknir fullt af sjénsum.“ En Tyrfingur fullyrðir að Borgarleikhúsið hræðist ekki að taka áhættur. „Það er svo gaman að vinna í svoleiðis umhverfi. Allir á nálum alltaf,“ segir hann.  

Hann segir enga embættismenn starfa í Borgarleikhúsinu heldur fái hann algjört frelsi til þess að skrifa leikritið. „Ég er til dæmis að fara út núna og það er bara sagt: „Gó kreisí, gerðu bara það sem þú vilt gera.“ Mér er bara alveg treyst til þess að vinna þetta verk,“ segir Tyrfingur.

Hann kemur til með að skrifa tvö verk á komandi ári. „Fyrra verkið, sem heitir Bláskjár, verður frumsýnt í febrúar. Það er ég að gera í samvinnu við leikhóp,“ útskýrir hann. „Síðan samhliða því að vinna að öðru verki fyrir Borgarleikhúsið sem frumsýnt verður á næsta leikári.“ Verkin tvö eru alveg ólík og því bíður Tyrfings mikil vinna við skriftir. „Bláskjár gerist í Kópavog. Að sjálfsögðu,“ útskýrir hann. „Það gerist í rauntíma, það er akkúrat á þeim tíma sem verkið tekur í flutningi. Þetta er óvenjulegt verk, það er svolítið gróft og innilokað en ég held að það verði fyndið líka.“ Hann segir hitt verkið talsvert fríkaðra. „Það er alveg á byrjunarstigi. Ronald McDonald, trúðurinn, kemur við sögu ásamt fleiri karakterum. Það verður um það hvað við erum dugleg að fara í Kringluna.“

Tyrfingur er þekktur fyrir verkið Grande sem hann fékk Grímutilnefningu fyrir nú í vor. Hann stundaði nám við LHÍ á brautinni Fræði og framkvæmd og útskrifaðist þaðan fyrir ári síðan.

   




Fleiri fréttir

Sjá meira


×