Íslenski boltinn

Ellefu manna meiðslahrúga hjá FH

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
FH mætir ÍBV á laugardaginn og Austria Vín á þriðjudaginn.
FH mætir ÍBV á laugardaginn og Austria Vín á þriðjudaginn. Mynd/Stefán
FH-ingar sækja ÍBV heim í Pepsi-deild karla á laugardaginn. Óhætt er að segja að meiðsli plagi Hafnfirðinga.

Hákon Atli Hallfreðsson hefur glímt við meiðsli í langan tíma og sömu sögu er að segja um Hólmar Örn Rúnarsson sem meiddist snemma á tímabilinu. Viktor Örn Guðmundsson hefur verið frá æfingum og keppni í nokkurn tíma líkt og fyrirliðinn Guðjón Árni Antoníusson og Englendingurinn Dominic Furness.

Pétur Viðarsson og Albert Ingason ferðuðust ekki með FH-ingum til Vínarborgar þar sem liðið tapaði 1-0 gegn Austria Vín á þriðjudaginn. Þá ganga Jón Ragnar Jónsson, Brynjar Ásgeir Guðmundsson, Sam Tillen og Freyr Bjarnason ekki heilir til skógar.

Við bætist að Ísfirðingurinn Emil Pálsson getur ekki leikið með FH á laugardaginn þar sem hann tekur út leikbann.

Ellefu leikmenn FH-inga ganga því ekki heilir til skógar um þessar mundir. Þeir fengu þó vænan liðsstyrk í félagaskiptaglugganum í gær þegar Davíð Þór Viðarsson, uppalinn FH-ingum og fyrrum fyrirliði Íslandsmeistaraliðsins, samdi til rúmlega tveggja ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×