Innlent

Rútubílstjórinn fer af landi brott í hádeginu

Jakob Bjarnar skrifar
Rútan fræga fer af landi brott í hádeginu, með Norrænu, en bílstjórinn var kominn í farbann.
Rútan fræga fer af landi brott í hádeginu, með Norrænu, en bílstjórinn var kominn í farbann.
Svissneski rútubílstjórinn, sá sem losaði úr kamri rútu sinnar á Selfossi fyrr í vikunni, fer af landi brott nú í hádeginu með Norrænu, að sögn lögreglunnar á Egilsstöðum. Bílstjórinn var kominn í farbann en eftir að hann greiddi sekt er hann laus allra mála.

Vísir og Bylgjan hafa greint skilmerkilega frá málinu og hefur það vakið talsverða athygli. Vegfarandi varð vitni af því þegar svissneskur rútubílstjóri losaði úr kamri rútu sinnar út í vegkant.

Bílstjórinn bar því við þegar á hann var gengið að þetta hafi verið mistök, hann hafi ýtt á vitlausan takka. Eftir að lögreglunni barst tilkynning um brotið gaf sýslumaðurinn á Selfossi út sektarboð. Lögreglan komst á slóð hans og náði í rassinn á honum á Egilsstöðum í gær.

Oddur Árnason yfirlögregluþjónn á Selfossi segir það ekki hafa verið flókið mál.

„Við fengum tilkynningu um þetta degi eftir að þetta gerðist, ljósmyndir og vísbendingar um hvaða farartæki var þarna á ferðinni. Við náðum svo símasambandi við ökumann rútunnar í gær, og tókum af honum skýrslu í gegnum síma en þá var hann kominn austur á land. Niðurstaðan var sú að honum var gert að mæta á lögreglustöðina á Egilsstöðum, þar sem honum var birt sektargerð og hann gekkst undir að greiða 150 þúsund króna sekt fyrir brot á reglugerð um lögreglusamþykktir, þar sem þetta er alfarið bannað að losa rusl og svona óþrifnað á víðavangi,“ segir Oddur.

Oddur segir ekki algengt að mál sem þessi komi til kasta lögreglu, hann minnist þess ekki en segir að kvartanir hafi borist um umgengni húsbíla en ekki að menn hafi verið að losa kamra sína á víðavangi. „Ég minnist þess ekki.“

Oddur vonast til að þetta mál verði til að senda skýr skilaboð.

„Ég held að það sé alveg ljóst að þetta sé ekki eitthvað sem menn vilja að lýðist. Niðurstaðan í þessu máli varð þessi. Karlgarmurinn, hann var nú miður sín yfir þessu; vildi meina að hann hafi gert þetta óviljandi og svo sem benti á að þetta væri aðallega skolvatn úr handlaugum, ekki eingöngu kamarinn sjálfur sem þarna var tæmdur. Þannig að, óþrifnaðurinn er fljótur að hverfa. En þetta á ekki við og við eigum ekki að láta þetta yfir okkur ganga,“ segir Oddur Árnason yfirlögregluþjónn á Selfossi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×