Innlent

Helmingi færri innbrot

Hödd Vilhjálmsdóttir skrifar
Hörður Jóhannesson aðstoðarlögreglustjóri.
Hörður Jóhannesson aðstoðarlögreglustjóri.
Helmingi færri innbrot voru framin á höfuðborgarsvæðinu um verslunarmannahelgina í ár en í fyrra. Lögregla segir það meðal annars almenningi að þakka að mörg innbrota hafi uppljóstrast.

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust tilkynningar um níu innbrot um verslunarmannahelgina árið 2011, árið 2012 fjölgaði tilkynnningunum um þrjár og voru þær þá 12. Síðastliðna verslunarmannahelgi fækkaði þeim um helming frá árinu á undan og voru þær alls sex talsins. Þar af voru tvær tilkynningar um innbrot í heimahús. Hörður Jóhannesson aðstoðarlögreglustjóri segir að innbrotum hafi almennt fækkað á liðnum tveimur til þremur árum og það skýrist meðal annars af hertu eftirliti lögreglunnar. "Við erum með mjög virkt eftirlit með virkustu brotamönnunum á sviði innbrota til dæmis og það skilar árangri," segir hann.

Samkvæmt Herði hefur nágrannavarsla komið sér vel fyrir lögreglu og almenning þegar kemur að þessum málum og að lögreglan hafi upplýst mikið af málum vegna ábendinga frá fólki.

Hann segir að á tímabili voru það aðallega hópar sem voru að standa í innbrotum. "Eins og ég nefndi áðan upplýstist sumt af því vegna þess að fólk lét okkur vita um grunsamlegar mannaferðir og gat lýst bílum og mönnum. Það leiddi í sumum tilvikum til þess að það upplýstist fjöldi brota sem að hópur manna hafði framið," segir hann að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×