Innlent

"Hvað ætlar hann að gera við þetta kjöt?“

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Erfitt hefur reynst að ná í Kristján (t.v.) undanfarið. Sigursteinn telur ómögulegt að selja kjötið.
Erfitt hefur reynst að ná í Kristján (t.v.) undanfarið. Sigursteinn telur ómögulegt að selja kjötið.
Samtökin IFAW og Hvalaskoðunarsamtök Íslands stóðu fyrir mótmælaaðgerðum í nótt, en þau telja hvalveiðar Íslendinga tilgangslausar.

Var siglt út á Faxaflóa með hvalaskoðunarbátum Eldingar og Specialtours að flutningaskipi Samskipa sem var á leið til hafnar með langreyðarkjöt sem ekki fékkst umskipað í evrópskum höfnum.

„Það er verið að benda á tilgangsleysi hvalveiðanna,“ segir Sigursteinn Másson, fulltrúi IFAW í samtali við Vísi.

„Það er búið að reyna að fá kjötið afgreitt í Rotterdam og Hamborg en þær tilraunir báru ekki árangur. Hollensk og þýsk stjórnvöld neituðu skipinu um afgreiðslu í kjölfar mótmæla almennings og umhverfisverndarsamtaka. Maður hlýtur því að spyrja sig að tilganginum,“ segir Sigursteinn, sem er vongóður um viðbrögð frá Kristjáni Loftssyni, forstjóra Hvals.

„Kristján hefur oft tjáð sig og það væri forvitnilegt að heyra hvað hann ætlar að gera, þó að hann hafi reyndar ekki látið ná í sig að undanförnu. Þegar hann heldur áfram að drepa stórhveli 150 mílur vestur af landinu og er að draga þau inn í hvalstöðina í Hvalfirði. Hvað ætlar hann að gera við þetta kjöt þegar hann kemur því ekki út? Því ekki selur hann það hér. Og svo er markaðurinn erfiður í Japan, sem sést best á því að þeir eru að reyna að búa til ýmislegt úr þessu annað en mannamat.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×