Íslenski boltinn

„Við höfum efni á þessu“

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Úr leik Fram og Víkings í gær.
Úr leik Fram og Víkings í gær. Mynd/Stefán
Jónas Gestur Jónasson, formaður knattspyrnudeildar Víkings í Ólafsvík, segir að félagið sé ekki að steypa sér í skuldir með því að fá erlenda leikmenn til félagsins.

Síðustu daga hafa Víkingar verið duglegir að styrkja leikmannahópinn en alls hafa fjórir spænskir leikmenn bæst í hópinn. Einn Spánverji hefur verið með síðan í upphafi tímabilsins og verða þeir því alls fimm í liðinu.

„Nú erum við hættir,“ sagði Jónas Gestur í léttum dúr við Vísi í dag. „Við teljum okkur vera nógu vel undirbúna fyrir átökin á seinni hluta tímabilsins,“ bætti hann við en Víkingar lyftu sér úr botnsæti Pepsi-deildar karla með 4-3 sigri á Fram í gær.

Jónas segir að félagið sé vant því að fá erlenda leikmenn til félagsins og að þeir hafi komið sér í samband við öfluga tengiliði á Spáni sem hafi útvegað þeim þessa leikmenn.

„Við höfum fengið bestu gæðin frá Spáni og því fórum við þessa leið núna. Allir þessir leikmenn eru samningslausir og hafa verið að leita sér að félögum síðan í vor.“

Aðspurður um kostnaðinn segir Jónas að þessu fylgir vissulega ákveðinn kostnaður.

„En íslenskur fótbolti kostar sitt og veltan er almennt mikil. Þetta er viðráðanlegur kostnaður fyrir okkur og við erum alls ekki að spenna bogann of hátt. Ég hef verið formaður síðan 2001 og ætla ekki að byrja á því núna að steypa félaginu í skuldir.“

„Við erum með öfluga styrktaraðila sem koma almennt að rekstri deildarinnar. Enginn styrktaraðili sér um ákveðna leikmenn heldur koma þeir að starfinu með almennum hætti,“ bætir hann við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×