Innlent

Ætla að gera við vélina hér á landi

Boði Logason skrifar
„Það voru ansi margir sem komu að verkinu, ég myndi giska á að þetta hafi verið í kringum 50 til 60 manns.“
„Það voru ansi margir sem komu að verkinu, ég myndi giska á að þetta hafi verið í kringum 50 til 60 manns.“
Framleiðandi og eigandi flugvélarinnar sem hlekktist á við lendingu á Keflavíkurflugvelli ætlar að gera við flugvélina hér á landi og fljúga henni til Rússlands.Um sextíu manns tóku þátt í því að koma þotunni frá flugbrautarendanum í gærkvöldi.

Óhappið varð á flugvellinum á sunnudagsmorgun þegar hjól vélarinnar fóru ekki niður fyrir lendingu og þurfti flugstjórinn því að magalenda henni og rann hún til á brautinni. Talsverðar skemmdir urðu á henni, meðal annars skemmdust báðir hreyflarnir mikið. Fimm voru um borð og sluppu þeir án alvarlegra meiðsla.

Ragnar Guðmundsson, stjórnandi rannsóknarinnar á flugslysinu, segir að tekist hafi að koma vélinni í stæði á Keflavíkurflugvelli seint í gærkvöldi.

„Það voru ansi margir sem komu að verkinu, ég myndi giska á að þetta hafi verið í kringum 50 til 60 manns,“ segir hann.

Tveimur púðum, sem slökkviliðið á Keflavíkurflugvelli hefur til afnota, var komið undir báða vængina. Þá hýfðu tveir stórir kranar vélina upp að framan og aftan. Því næst var rafmagni komið á vélina og hjólin sett niður.

Ragnar segir að lítil hætta hafi verið á ferðum, enda hafi eldsneytinu verið tappað af vélinni í fyrradag.

„Næstu skref eru þau að í dag verður vélin skoðuð betur því nú höfum við aðgang að neðri hluta vélarinnar. Hún verður skoðuð af rannsóknaraðilum, líka rússneskum, tryggingaraðila sem mun grófmeta tjónið. Svo fær framleiðandinn leyfi til að koma að vélinni og meta skemmdir, svo hann getið ákveðið hvað hann ætlar að gera í framhaldinu.“

Ragnar segir að vélin sé töluvert skemmd.

„Hún er mjög mikið skemmd, hreyflarnir báðir eru mjög illa farnir. Það eru líka miklar skemmdir á afturhluta búks vélarinnar.“

Í yfirlýsingu sem framleiðandi vélarinnar gaf frá sér á mánudag, segir að vélin hafi verið við æfingar í hliðarvindi og hún hafi einungis flogið á einum hreyfli þegar slysið varð. Þá segir einnig í yfirlýsingunni að gert sé ráð fyrir því að gera við vélina hér á landi áður en henni verði flogið á brott.

„Ég hef ekki fengið þetta endanlega staðfest frá þeim, en þetta er það plan sem ég heyrði af og þeira vinna út frá. En eins og ég segi þá á enn eftir að meta skemmdirnar,“ segir Ragnar að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×