Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl, einkunnir og myndir: Valur - ÍA 6-4 | Tíu marka leikur

Guðmundur Marinó Ingvarsson á Vodafonev-vellinum skrifar
Valur vann ÍA 6-4 í ótrúlegum markaleik sem markverðir liðanna vilja eflaust gleyma fljótt. Valur var 4-3 yfir í hálfleik.

Kristinn Freyr Sigurðsson skoraði fyrsta mark leiksins eftir fimmtán mínútur og það var ljóst hvert stefndi þegar Ármann Smári Björnsson jafnaði metin tveimur mínútum síðar.

Garðar Bergmann Gunnlaugsson kom ÍA yfir á 22. mínútu og tveimur mínútum síðar hafði Arnar Sveinn Geirsson jafnaði metin fyrir Val.

Markverðir liðanna voru í engum takt við leikinn. Vörn ÍA var með lélegasta móti og Valur átti í miklum vandræðum með að verjast föstum leikatriðum þar sem ÍA náði að nýta stærð og styrk Ármanns Smára auk þess sem Fjalar Þorgeirsson var mjög óöryggur í markinu.

Jóhann Karl Guðjónsson kom ÍA yfir öðru sinni á 32. mínútu og allt benti til þess að ÍA yrði yfir í hálfleik þegar Daniel Craig Racchi jafnaði metin tveimur mínútum fyrir hálfleik. Enn var tími fyrir Val að komast yfir því Kristinn Freyr skoraði sitt annað mark rétt fyrir hálfleik.

Valur hóf seinni hálfleik af krafti og virtust staðráðir í að nýta sér augljósa veikleika í vörn ÍA og sóttu upp kantana. Það tók Val engu að síður 30 mínútur að skora í seinni hálfleik þegar Kristinn Freyr fullkomnaði þrennu sína.

Garðar Bergmann minnkaði muninn á 89. mínútu en það var Valur sem hóf stór sókn eins og liðið en ekki ÍA þyrfti að jafna metin. Uppskar Valur sjötta markið upp úr því þegar Racchi skoraði annað mark sitt.

Magnús: Eins og fólkið vill hafa þetta„Mér fannst þessi leikur mjög mikil skemmtun. Þetta var stress á tímabili og sérstaklega fyrri hálfleikur. Hann var ótrúlegur. Sennilega ótrúlegasti sem ég hef spilað,“ sagði Magnús Gylfason þjálfari Vals í leikslok.

„Það koma oft villtir fyrri hálfleikar og svo detta leikirnir niður en mér fannst þessi ekki detta niður. Það var fullt af færum í seinni hálfleik og þrjú mörk í viðbót. Þetta var kannski eins og fólkið vill hafa þetta en ekki þjálfararnir.

„Það losnaði einhver stífla, það var langt síðan við höfðum skorað. Þessi leikur var mjög opinn og við fengum nokkur færi í viðbót við mörkin.

„Það var sálfræðilega gríðarlega sterkt að komast yfir fyrir leikhlé. Við vorum ekki að spila illa og fengum þessi mörk á okkur úr föstum leikatriðum. Það hefði verið freistandi ef við værum undir í hálfleik að breyta en mér fannst við ekki spila illa í fyrri hálfleik þrátt fyrir að fá á okkur þrjú mörk. Við löguðum ákveðna hluti og menn brugðust vel við og kláruðu leikinn á fullu,“ sagði Magnús sem staðfesti að Valur sé búið að taka erlendu tilboði í Rúnar Má Sigurjónsson.

„Það er búið að samþykkja tilboð sem kom erlendis frá. Það á eftir að fara fram læknisskoðun og hann á eftir að semja sjálfur. Það er mikill missir að missa hann. Hann er meiddur og er búinn að vera meiddur,“ sagði Magnús.

Þorvaldur: Fannst við stjórna leiknum„Við skoruðum fjögur góð mörk. Við erum að reyna. Við komum okkur í færi og inn í boxið og völdum þeim miklum usla sem þeir ráða ekki við en við ráðum ekki heldur við okkur og fáum of mörg mörk á okkur,“ sagði Þorvaldur Örlygsson þjálfari ÍA.

„Við eigum í vandræðum með að hreinsa úr vörninni. Mér fannst við stjórna leiknum og geta klárað þennan leik. Meira að segja þegar við lendum tveimur mörkum undir og minnkum í eitt þá fannst mér líka vera möguleiki á að jafna. Hitt liðið var þannig spilandi í dag að það var möguleiki en við fáum of mörg mörk á okkur.

„Leikmenn eru svekktir að tapa leiknum í leik sem þeim fannst þeir eiga möguleika á að vinna. Að skora fjögur mörk og leggja sig fram og eru svekktir með tapið.

„Dómgæslan var ekki góð, hún var mjög slök. Takturinn í leiknum fer. Það er hoppað inn í bakið á Ármanni Smára endalaust og það sjá það allir en samt er ekkert dæmt. Dómarinn ber ekki skynbragð á það og ef hann er ekki betri en það þá get ég ekki breytt því. Það er erfitt að mæta í leik og þú veist ekki hvaða ákvarðanir eru teknar og eftir hvaða reglum er farið. Hann leggur sig fram eins og við hinir. Við gerðum mistök í leiknum og hann svo sannarlega líka,“ sagði Þorvaldur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×