Íslenski boltinn

Stjörnustrákum mistókst aftur að jafna félagsmetið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stjörnumenn náðu aðeins í stig í Ólafsvík í gær.
Stjörnumenn náðu aðeins í stig í Ólafsvík í gær. Mynd/Ernir
Stjörnumenn áttu í gær möguleika á að jafna félagsmetið yfir flesta sigurleiki í röð í efstu deild þegar þeir heimsóttu Ólafsvíkur-Víkinga í 13. umferð Pepsi-deildar karla í fótbolta en urðu þá að sætta sig við 1-1 jafntefli við Víkinga.

Þetta er í annað skiptið í sumar þar sem Stjörnuliðinu mistekst að jafna metið því liðið var einnig búið að vinna þrjá leiki í röð þegar Stjarnan gerði 1-1 jafntefli við Þór á Akureyri.

Félagsmet Stjörnumanna er 23 ára gamalt en liðið vann fjóra leiki í röð á sínu fyrsta tímabili í efstu deild, sumarið 1990. Sú sigurganga endaði reyndar á stórtapi á móti verðandi Íslandsmeisturum Framara.

Stjörnumenn hafa alls fjórum sinnum unnið þrjá leiki í röð síðan að þeir komu aftur upp í efstu deild sumarið 2009 því liðið náði því einnig 2009 og 2011 þá undir stjórn Bjarna Jóhannssonar.

Flestir sigrar Stjörnunnar í röð í efstu deild:

4 - 1990 (13. til 16. leik, 1-6 tap gegn Fram)

3 - 2009 (1. til 3. leik, 1-5 tap fyrir FH)

3 - 2011 (19. til 21. leik, 3-4 tap fyrir Breiðablik)

3 - 2013 (5. til 7. leik, 1-1 jafntefli við Þór)

3 - 2013 (9. til 12. leik, 1-1 jafntefli við Víking Ó.)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×