Fótbolti

Blikar áfram eftir viðburðarríkt jafntefli

Ellert skorar síðara mark sitt í fyrri leiknum á Kópavogsvelli.
Ellert skorar síðara mark sitt í fyrri leiknum á Kópavogsvelli. Mynd/Vilhelm
Breiðablik komst örugglega áfram í 2. umferð forkeppni Evrópudeildar UEFA eftir 4-0 samanlagðan sigur á FC Santa Coloma frá Andorra.

Liðin skildu jöfn, 0-0, í síðari leiknum sem fór fram ytra nú síðdegis. Tvær vítaspyrnur fóru í súginn og heimamenn misstu þar að auki mann af velli með rautt spjald í upphafi síðari hálfleiks.

Nichlas Rohde gerðist fyrst brotlegur í teig í uppbótartíma fyrri hálfleiks en Isma Quinones, leikmaður Santa Coloma, brenndi af vítaspyrnunni.

Quinones braut svo sjálfur á Kristni Jónssyni í upphafi síðari hálfleiks og uppskar fyrir það rautt spjald, auk þess sem vítaspyrna var dæmd. Sverrir Ingi Ingason steig á punktinn en náði ekki að skora úr vítinu.

Þar við sat, þó svo að Blikar hafi sótt meira í síðari hálfleik en í þeim fyrri.

Breiðablik mætir austurríska liðinu Sturm Graz í næstu umferð. Fyrri leikurinn fer fram þann 18. júlí.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×