Fótbolti

Siggi Raggi: Við áttum við ofurefli að etja

Óskar Ófeigur Jónsson í Växjö skrifar
Dagný Brynjarsdóttir í baráttunni við Þjóðverjana í dag.
Dagný Brynjarsdóttir í baráttunni við Þjóðverjana í dag. Nordicphotos/AFP
„Þær voru mjög góðar í dag og við vorum í basli á móti þeim á stórum köflum í leiknum. Við reyndum að verjast vel en í sóknarleiknum náðum við ekki að búa mikið til. Gæðamunurinn á liðuinum var of mikill," sagði Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari íslenska liðsins.

„Þýska liðið spilaði mjög vel í dag og var miklu betra en á móti Hollandi. Svo gæti líka verið að Holland hafi spilað virkilega vel á móti þýska liðinu. Vonandi getum við tekið Hollendingana. Við erum að fara í úrslitaleik á móti þeim um að komast í átta liða úrslit. Við getum náð markmiðinu okkar ennþá og þurfum sigur í þeim leik," sagði Sigurður Ragnar.

„Guðbjörg varði rosalega vel oft á tíðum og tvær til þrjár markvörslur voru stórkostlegar. Það er mjög gott að hún sé að koma svona sterk inn í fjarveru Þóru. Það er gott að eiga svona góða markmenn og það er ljós punktur," sagði Sigurður Ragnar en hann sá fleiri jákvæða punkta.

„Mér fannst Glódís komast líka vel frá leiknum. Hún fékk mikið traust að byrja inn á í þessum leik. Sumir höfðu áhyggjur af því að hún virkaði stressuð í síðasta leik. Hún er einn efnilegasti leikmaðurinn sem við eigum og hún þarf að fá að spila þessa leiki og fá reynslu. Það var frábært fyrir hana að fá að byrja í dag og hún stóðst fyllilega mínar væntingar í dag," sagði Sigurður Ragnar.

„Allir leikmenn átta sig á stöðunni. Við áttum við ofurefli að etja í dag og við getum ekki eytt löngum tíma í að vera fúl yfir því. Það er bara að jafna sig fyrir næsta leik sem er úrslitaleikur. Við vitum mikilvægi leiksins og ég er viss um að það gera allar allt sem í þeirra valdi stendur að undirbúa sig vel og vera klárar þegar sá leikur byrjar," sagði Sigurður Ragnar.


Tengdar fréttir

Margrét Lára: Þær voru bara miklu betri en við

Margrét Lára Viðarsdóttir fékk ekki úr miklu að moða í Växjö í kvöld ekki frekar en aðrir sóknarleikmenn íslenska liðsins enda íslenska liðið í varnarhlutverki allan tímann.

Enginn markmaður ánægður með að fá á sig þrjú mörk

"Ég bjóst ekki við því að Þjóðverjar yrðu með svona ótrúlega mikla yfirburði. Ég bjóst að við myndum gefa þeim meiri mótspyrnu en þetta var mjög erfitt," sagði Guðbjörg Gunnarsdóttir markvörður íslenska liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×