Starfsfólk hugbúnaðarrisans Google er nú komið hingað til lands til að kortleggja allar götur og vegi landsins fyrir Google Streetview. Sérútbúinn bíll Google lagði af stað til Íslands frá Kaupmannahöfn í Norrænu í gær og munu sérfræðingar ferðast um Ísland næstu 1-2 mánuði í þeim tilgangi mynda landið hátt og lágt fyrir vefinn.
Þetta staðfesti eigandi iStore á Íslandi á Facebook-síðu verslunarinnar í morgun, en hann var samferða Google-mönnum frá Danmörku til Íslands á Norrænu.
„Getum staðfest það hér með eftir samtal eiganda iStore við starfsmenn Google sem eru samferða honum á Norrænu. Google mun ferðast á næstu 1-2 mánuðum um ísland til að kortleggja allar götur og vegi landsins fyrir Google Streetview. Svo að VINSAMLEGAST TAKIÐ TIL Í KRINGUM HEIMILI YKKAR OG KLÆÐIST SÓMASAMLEGA NÆSTU VIKURNAR,“ segir í færslunni.
Fólk getur því átt von á að rekast á Google-bílinn á vegum landsins næstu vikurnar.
Google Streetview kortleggur Ísland
Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
