Innlent

Ferðamenn hanga á húnunum

Heimir Már Pétursson skrifar
Jakob Frímann Magnússon miðborgarstjóri segir æskilegt að verslanir í miðborginni opnuðu fyrr en nú þar sem ferðamenn hangi margir á húnunum snemma dags. Hins vegar séu í gildi tilmæli til kaupmanna um samræmdan opnunartíma og hafa opið frá klukkan tíu á morgnana til sex á virkum dögum og ellefu til sextán um helgar. Flestar verslanir virði þau tilmæli. Hildur Símonardóttir kaupmaður gagnrýndi í hádegisfréttum Bylgjunnar að margar verslanir opnuðu ekki fyrr en undir hádegi. Jakob Frímann segir borgina ekki geta skilyrt opnunartímann eins og Kringlan og Smáralind geri.

„Í miðborginni eru menn frjálsir til þess opnunartíma sem þeim hugnast. En þorri kaupmanna gengst undir það að halda og virða þennan samræmda opnunartíma,“ segir Jakob Frímann. Sumir kaupmenn hafi hins vegar kosið að opna enn fyrr og það sé virðingarvert. Enn aðrir opna aftur á móti ekki fyrr en klukkan ellefu og jafnvel ekki fyrr en klukkan tólf.

„Já, það er auðvitað ekki gott þegar fólk virðir ekki þessi tilmæli og veikir samstöðuna sem er mikilvæg,“ segir Jakob Frímann. Þótt borgin geti ekki skyldað kaupmenn til að opna fyrr þætti honum persónulega æskilegt að þeir gerðu það.

„Það væri mjög æskilegt ekki síst í ljósi þess að margir erlendir ferðamenn eru mættir fyrir allar aldir og byrjaðir að hanga á húnunum víða. Það mætti gjarnan hafa það í huga þegar  opnunartíminn er annars vegar; að það eru viðskiptavinir tilbúnir að mæta miklu fyrr en þessar verslanir bjóða upp á margar hverjar,“ segir Jakob Frímann Magnússon miðborgarstjóri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×