Innlent

Vill að lögregla rannsaki kampavínsklúbba

Borgarfulltrúi Samfylkingarinnar vill að lögreglan rannsaki rekstur kampavínsstaða í Reykjavík. Hún telur að um vændisstarfsemi sé að ræða og að konur sem þar starfa sé fengnar hingað til lands í gegnum mansal.

Starfsemi kampavínsstaða hefur verið umdeild en þar geta viðskiptavinir keypt kampavín og spjallað við stúlkur sem þar starfa. Einn slíkur staður hefur verið rekinn við Lækjargötu í miðborg Reykjavíkur um árabil.

Nýlega voru tveir staðir til viðbótar opnaðir í Reykjavík, annar í Austurstræti og hinn við Ármúla.

Fjallað er um starfsemi þessara staða í Fréttablaðinu í dag. Þar segir meðal annars að fyrir tuttugu þúsund krónur geta viðskiptavinir farið afsíðis með stúlkum sem þar starfa. Stúlkurnar sem blaðið ræddi við sögðust vera frá Slóveníu og búa saman í lítilli blokkaríbúð

Björk Vilhelmsdóttir, borgarulltrúi samfylkingarinnar, segir að rekstur þessara staða sé ekki í samræmi við stefnu borgaryfirvalda og vill að lögreglan kanni málið.

"við erum alfarið á móti þessari starfsemi. Það virðist vera að þarna sé ólögleg starfsemi á ferðinni og mér finnst full ástæða til þess að lögregla kanni þetta," segir Björk. "Þarna er verið að selja aðgang að konum sem er klárt vændi."

Björk ætlar beita sér sérstaklega í þessu máli

"Ég er ansi hrædd um að þessar konur séu líka fengnar hingað í gegnum mansal og sem er líka algjörlega ólöglegt eins og vændið," segir Björk.

Blaðamaður Fréttablaðsins fór ásamt heimildarmanni í vettvangsferð á staðina fyrr í vikunni. Nánar er fjallað um málið hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×