Innlent

Stjórnarandstaðan studdi 90 prósenta lánin

Hjörtur Hjartarson skrifar
Lögin um 90 prósenta lánin frá íbúðalánasjóði voru samþykkt með öllum greiddum atkvæðum á Alþingi í desember 2004. Í skýrslu rannsóknanefndar um sjóðinn segir að grunnurinn að ógæfu Íbúðalánasjóðs hafi verið lagður með lagabreytingunni. "Algjörlega ósammála þessu mati skýrsluhöfunda", segir Ögmundur Jónasson sem studdi frumvarpið.

Kosningaloforð Framsóknarflokksins í aðdraganda kosninganna 2003 um að hækka veðhlutfall almennra lána úr 65 prósentum í 90 prósentum var sett inn í stjórnarsáttmála Framsóknar og Sjálfstæðisflokks og varð á endanum að lögum í desember 2004. Nokkrum mánuðum fyrr hafði húsbréfakerfið verið lagt niður og íbúðakerfið tekið upp. Um þessar ákvarðanir segir í skýrslu rannsóknarnefndarinnar, "þessi vegferð endaði illa og varð þjóðinni dýrkeypt."

Þrátt fyrir þessa gagnrýni var góður samhljómur á Alþingi þegar kom að breytingum um útlánareglur sjóðsins, haustið 2004. Stjórnarandstaðan studdi frumvarp Árna Magnússonar, félagsmálaráðherra. Grípum niður í ræðubrot nokkurra þingmanna:

Jóhanna Sigurðardóttir, nóvember, 2004

"Ég heiti hæstvirtum ráðherra stuðningi í því að afgreiða þetta mál fljótt og vel í nefndinni þannig að hægt verði að fara fyrr í hækkun á lánshlutfallinu, í 90%. Þetta hefur engin áhrif á verðbólguna eða þensluna."

Steingrímur J. Sigfússon, desember 2004

"Aðalatriði þessa máls er að hér er verið að taka skref í rétta átt."





Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri Grænna tók einnig til máls. Hann taldi rétt að samþykkja frumvarpið en jafnframt stíga skref í þá átt að hækka þá lánsfjárhæð sem viðskiptavinum Íbúðalánasjóðs bauðst á þessum tíma. Ögmundur segist standa við þessi orð sín í dag enda telur hann skýrsluhöfunda ofmeta þátt 90 prósenta lánanna í vandræðum Íbúðalánasjóðs.

"Ég er algjörlega ósammála því. Ég er það núna og hef alltaf verið."

Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar segir að þessar ákvarðanir hafi leitt til mikillar þenslu, hækkandi fasteignaverðs og verðbólgu.

"Það er algjörlega bankanna að bera ábyrgð á því", segir Ögmundur. " Það eru þeir sem kyntu undir bálið. Það voru þeir sem undirbuðu Íbúðalánasjóð. Það voru þeir sem buðu öllum 90 prósenta lán. En sökin sem liggur hjá Íbúðalánasjóði er að hafa gert ákveðin hagstjórnarleg mistök við öflun lánsfjár og síðan lánað bönkunum til þess að keppa við hann sjálfan."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×