Innlent

Íslensk fjölskylda flutt á slysadeild

Jóhannes Stefánsson skrifar
Slys urðu á fólki í þriggja bíla árekstri undir Hafnarfjalli.
Slys urðu á fólki í þriggja bíla árekstri undir Hafnarfjalli. Vilhelm
Uppfært kl 22.21:

Samkvæmt upplýsingum frá vakthafandi lækni á Bráðamóttöku Landspítalans er enginn þeirra sem fluttur var á slysadeild alvarlega slasaður. Fólkinu var aðallega brugðið og það lemstrað, en engin bein brotnuðu að sögn læknisins. Ákveðið hefur verið að barn sem var í bílnum verði á spítalanum yfir nóttina en ráðgert er að það muni útskrifast á morgun.

---

Þriggja bíla árekstur varð undir Hafnarfjalli þegar húsbíll fauk yfir á öfugan vegarhelming, svo að flytja þurfti þrjá með sjúkrabíl á slysadeild. Áreksturinn varð með þeim hætti að húsbíllinn fauk í veg fyrir tvo bíla sem komu úr gagnstæðri átt. Annar bílanna náði að sneiða hjá húsbílnum en hinn varð í vegi hans með þeim afleiðingum að þeir enduðu utan vegar.

Lögreglan í Borgarnesi tjáði fréttastofu að þrír hefðu slasast, sem allir voru í fólksbílnum sem varð fyrir húsbílnum. Þeir voru fluttir með sjúkrabíl á slysadeild Landspítalans, en talið er að meiðsl eins séu alvarlegri en hinna. Fólkið sem var í húsbílnum er ómeitt.

Ekki liggur þó fyrir hversu alvarleg meiðsl um er að ræða, en ekki náðist í vakthafandi lækni vegna málsins.

Vegagerðin hafði fyrr í dag varað við slæmri veðurspá, en meðalvindur undir Hafnarfjalli fór í 19 m/sek í kvöld og var 37 m/sek í hviðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×