Innlent

"Rosalega erfitt að lesa í Ólaf"

Hjörtur Hjartarson skrifar
Þeir Ísak Jónsson og Agnar Kristján Þorsteinsson mættu á Bessastaði um þrjú leytið í dag með undirskriftalistann sem telur 34.882 nöfn.



"Við sannreyndum öll þau sem voru með kennitölum, sannreyndum þau við þjóðskrá. Og þau nöfn sem voru ekki með kennitölum þar sannreyndum við yfirgnæfandi meirihluta við þjóðskrá eins og þau voru stafsett á síðunni, þannig að eftir liggja einhver þúsund nöfn sem eru stafsett með kannski ð í staðinn fyrir d, sem er erfiðara að sannreyna. En þetta er semsagt allt saman yfirfarið", sagði Ísak Jónsson, annar forsvarsmanna söfnunarinnar.



Ólafur Ragnar Grímsson sagði um leið og hann tók við listanum að mikilvægt væri fyrir  fólkið í landinu að það notaði lýðræðislegan rétt sinni.

Þessu næst fóru þremenningarnir afsíðis þar sem þeir ræddu málin í hátt í klukkutíma. Að honum loknum virtust þeir Ísak og Agnar þó litlu nær um afstöðu forsetans til málsins.

"Honum var mikið í mun að ítreka að þetta væri ekki auðveld ákvörðun. Það væru margir þættir sem kæmur þarna inn í, þetta gæti haft fordæmisgefandi áhrif og annað þessháttar", sagði Ísak

Aðspurður um hvað væri hægt að lesa í viðbrögð Ólafs og orð hans fundinum, sagði Ísak:

"Ég bara veit það ekki. Það er rosalega erfitt að lesa í Ólaf."

Ólafur Ragnar Grímsson hefur þrívegis synjað lagafrumvarpi staðfestingar. Fyrst 2004 þegar að tæplega 32 þúsund manns skoruðu á forsetann að samþykkja ekki lögin. 56 þúsund manns hvöttu Ólaf til að skrifa ekki undir lög um Icesave samninginn í janúar, 2010 og 38 þúsund vegna sama máls í febrúar 2011.



Ólafur Ragnar vildi ekki veita fjölmiðlum viðtal að fundi loknum. Ekki fengust heldur upplýsingar um hvenær hann hyggst opinbera ákvörðun sína. En reikna má með að Ólafur taki sér nokkra daga í að hugsa málið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×