Innlent

"Það er alltaf góð stemming á Hróarskeldu"

Hjörtur Hjartarson skrifar
Hljómsveitin Sigurrós fær afbragðsdóma fyrir frammistöðu sína á tónlistarhátíðinni Hróarskeldu í gærkvöld. Viðstaddir segja að andrúmsloftið hafi verið einstakt. Orri Páll Dýrason, trommari sveitarinnar segir alltaf gaman að spila á hátíðinni og sérstakt hafi verið að spila í gær.

Gagnrýnendur fóru fögrum orðum um tónleikana í gær og mátti lesa lýsingar eins og töfrandi miðnæturmessa og að jörðin hafi tekið að skjálfa þegar tónleikarnir náðu hápunkti sínum.

„Þetta var bara gaman, eins og alltaf á Hróarskeldu. Það er alltaf einhver mjög góð stemming. Það er líka gaman að fá viðurkenningu fyrir það sem maður hefur verið að gera,“ sagði Orri Páll í samtali við fréttastofu á morgun.

Eina sem gagnrýnendur höfðu út á að setja var að fleiri lög af nýju plötunni Kveikur hefðu mátt heyrast.

„Við spiluðum þrjú lög af nýju plötunni, við hefðum kannski getað spilað eitt í viðbót,“ sagði hann.

Sigurrós hefur nú verið á tónleikaferðalagi í heilt ár og enn eru sex mánuðir eftir. Orri segir þó að ekki sé nein teljandi þreyta komin í hópinn.

„Ég verð að játa það að ég er pínulítið ryðgaður í dag. Þetta er alltaf gaman. Við komum heim í dag og svo út aftur, við spilum í Finnlandi næstu helgi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×