Fótbolti

Breno fær mögulega starf hjá Bayern

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Brasilíumaðurinn Breno situr nú af sér fangelsisdóm í Þýskalandi vegna íkveikju en félagið er reiðubúið að rétta honum hjálparhönd.

Breno var sakfelldur í júlí í fyrra og dæmdur til að sitja í fangelsi í þrjú ár og níu mánuði. Sannað þótti að hann hefði brennt glæsivillu sem hann leigði til grunna.

Fangelsisyfirvöld eru reiðubúin að sleppa Breno út úr prísundinni á daginn en skilyrði fyrir því er að hann geti stundað vinnu. Þá mun einnig koma til greina að stytta fangelsisdóm hans um helming.

Karl-Heinz Rummenigge, framkvæmdarstjóri Bayern, segir félagið reiðubúið að koma sínum fyrrum skjólstæðingi til hjálpar. „Hann myndi líklega vinna með unglingaliðinu okkar og starfa sem aðstoðarþjálfari. Um leið fær hann tækifæri til að halda sér í formi,“ sagði Rummenigge við þýska fjölmiðla.

Á meðan að Breno beið eftir niðurstöðu dómsmálsins samdi hann við Sao Paolo, sitt gamla félag í Brasilíu, til ársins 2015. Þýsk yfirvöld munu vísa Breno úr landi þegar hann losnar úr fangelsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×