Íslenski boltinn

Myndi þiggja sömu úrslit og 2009

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Finnur í leik gegn Þór í sumar.
Finnur í leik gegn Þór í sumar. Mynd/Vilhelm
„Við unnum þann leik þannig að ég myndi alveg þiggja sömu úrslit," segir Finnur Orri Margeirsson fyrirliði Breiðabliks.

Breiðablik sækir Fram heim í undanúrslitum Borgunarbikars karla í knattspyrnu en liðin mættust í úrslitaleik keppninnar árið 2009. Þá vann Breiðablik sigur eftir vítaspyrnukeppni og um leið sinn fyrsta titil í karlaflokki.

„Viðureignir okkar við Fram þekkja allir. Svo eru Stjarnan og KR líka mjög sterk lið. Við verðum að gefa allt í þennan leik," segir Finnur Orri. Viðureignir liðanna hafa verið afar jafnar og er skemmst að minnast 1-1 jafntefli liðanna í deildinni á dögunum.

Fram marði sigur á 2. deildarliði Gróttu í gær og er fyrir neðan hin þrjú liðin í deildinni. Því mætti ætla að um draumadrátt væri að ræða fyrir Blika.

„Það er hægt að segja það en svo vitum við hvernig bikarinn er. Þetta er einn leikur og síðasti leikur eða staðan í deildinni skiptir engu máli."

Aðspurður hvort bikarinn sé besti möguleiki Blika á titli í sumar segir fyrirliðinn:

„Það er mikill möguleiki í deildinni. En þetta er kannski stysta leiðin að titli og við ætlum að nýta okkur það."

Leikur Fram og Breiðabliks fer fram fimmtudaginn 1. ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×