Íslenski boltinn

Malarvellirnir þóttu ekkert sérstakir

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Rúnar Kristinsson á æfingu með KR-strákana.
Rúnar Kristinsson á æfingu með KR-strákana. Mynd/Valli
„Þetta er bara fínn dráttur. Það voru fjögur frábær lið í hattinum og þetta gat ekki orðið annað en erfiður leikur," segir Rúnar Kristinsson þjálfari KR.

Bikarmeistarar KR sækja Stjörnuna heim í undanúrslitum Borgunarbikarsins þann 31. júlí næstkomandi. Aðspurður hvernig útileikur á gervigrasi gæti verið fínn dráttur fyrir bikarmeistarana segir Rúnar:

„Heimaleikur hefði verið fínt en gervigrasið í Garðabænum er orðið það gott. Við æfum allan veturinn á gervigrasi og erum með gott fótboltalið og gervigrasið hentar okkur ágætlega. Stjarnan er öllu vanari gervigrasinu og þekkir aðstæður betur en það þýðir ekki að velta því fyrir sér," segir Rúnar. Hann minnir á að gervigrasvellir séu notaðir úti um allan heim.

„Menn eru farnir að spila í Evrópukeppnum og Meistaradeild á gervigrasi og það þýðir ekkert að berja hausinn við stein endalaust. Þetta er hvert annað verkefni. Við spiluðum á malarvöllum í gamla daga og það þótti ekkert sérstakt."

KR-ingar hafa unnið bikarinn undanfarin tvö ár og hafa leikið í bikarúrslitum síðustu þrjú.

„Þetta eru strákar með metnað og vilja. Þeir hafa stigið upp í þessum leikjum og verið nokkuð sannfærandi. Við vonumst til að taka þetta aðeins lengra."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×