Erlent

Er verið að fylgjast með þér inni í stofu? Það er ekki útilokað

Myndin er úr safni.
Myndin er úr safni.
Er verið að fylgjast með þér heima í stofu? Rannsókn breska ríkisútvarpsins hefur leitt í ljós að það er ekki ólíklegt.

Rannsókn fréttastofu breska ríkisútvarpsins hefur leitt í ljós að tölvuþrjótar eru farnir að brjótast inn í tölvur almennings í því skyni að ná stjórn á vefmyndavél tölvu viðkomandi.

Ef þrjótarnir komast yfir myndefni, þar sem notandi tölvunnar er fáklæddur eða nakinn, selja þeir myndirnar á svörtum markaði. Myndirnar eru seldar fyrir nokkur pund og eru viðföngin yfirleitt kölluð þrælar á meðal tölvuþrjótanna.

Lögreglan í Bretlandi staðfestir að rannsóknir þeirra hafi leitt í ljós að tölvuþrjótar geti náð stjórn á vefmyndavélum fólks og þannig fylgst með þeim heima í stofu. Til þess að svo verði þarf tölvunotandinn að smella á vírus, sem er oftast í formi tölvupósts.

Þannig er viðkomandi beðinn um að smella á hlekk sem á að leiða notandann á heimasíður með myndum af frægu fólki, megrunarráðum eða tónlist svo dæmi séu tekin. Raunin er sú að vírus, sem er kallaður RAT, hleðst niður í tölvuna með fyrrgreindum afleiðingum.

Ekki er langt síðan 36 ára gamall karlmaður var dæmdur fyrir að sýkja yfir tvöhundruð þúsund tölvur með þessum hætti. Sá fékk eins og hálfs árs fangelsi fyrir brot sín.

Besta vörnin gegn óboðnum gestum eru vírusvarnir. Þær tölvur sem eru sýktar eiga það nefnilega margar sameiginlegt að vírusvarnir þeirra eru gamlar og úreltar.

En hugsanlega er  besta ráðið einfaldlega að hylja fyrir myndavélina, sé maður ekki að nota hana. Ekki hafa komið upp sambærileg dæmi á Íslandi eftir því sem best er vitað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×