Erlent

Tvær milljónir mótmæla í Brasilíu

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Mótmælin í Brasilíu hafa nú staðið yfir í rúma viku.
Mótmælin í Brasilíu hafa nú staðið yfir í rúma viku. MYND/AFP
Forseti Brasilíu, Dilma Rousseff, boðaði til neyðarfundar með ríkisstjórn sinni í dag vegna fjölmennra mótmæla víðsvegar um landið. Talið er að um tvær milljónir manns í yfir 80 borgum hafi tekið þátt í mótmælunum í nótt.  

Mótmælin hafa nú staðið yfir í rúma viku, en fólk mótmælir hækkun fargjalda í almenningssamgöngur og miklum útgjöldum vegna íþróttamóta sem fyrirhugað er að halda í landinu á næstunni. Mótmælendum ofbýður hvernig komið er fyrir heilbrigðis- og menntamálum og telja að fénu sé betur varið í að efla heilsugæslu og bæta almenn lífskjör íbúa.

Tugir hafa slasast í mótmælunum, sem eru þau mestu í landinu í tvo áratugi, og einn lét lífið. Þá beytti lögregla í Rio de Janeiro táragasi og skaut gúmmikúlum á fólk sem reyndi að kveikja eld í opinberum byggingum í nótt.

Á miðvikudaginn reyndu yfirvöld að lægja öldurnar með því að hætta við fargjaldahækkanirnar umdeildu, en það bar ekki árangur. Mótmælendur halda ótrauðir áfram að mótmæla spillingu og krefjast stjórnkerfisbreytinga í landinu.

The Guardian greinir frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×