Innlent

Sérsveitin kölluð út vegna hestamanns

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Fólk rak upp stór augu þegar maður kom ríðandi eftir gangstéttinni við Lækjargötu. Hann nam svo staðar við Stjórnarráðið þar sem hesturinn fékk sér væna tuggu af grasi úr garðinum.
Fólk rak upp stór augu þegar maður kom ríðandi eftir gangstéttinni við Lækjargötu. Hann nam svo staðar við Stjórnarráðið þar sem hesturinn fékk sér væna tuggu af grasi úr garðinum. MYND/GETTY
Lögregla fékk tilkynningu um mann á hesti við Stjórnarráðið um tíuleytið í morgun. Maðurinn var með ílangan hlut á bakinu sem talið var að gæti hugsanlega verið skotvopn. Því var sérsveitin send á vettvang og settur í gang mikill viðbúnaður.

Betur fór en á horfðist og var maðurinn óvopnaður, en að sögn lögreglu var ílangi hluturinn pískur eða einhverskonar göngustafur. Aðspurður sagðist maðurinn hafa ætlað að afhenda forsætisráðherra bréf með skilaboðum til ríkisstjórnarinnar. Hann sagðist hafa verið beittur miklu óréttlæti og að eignir hans hafi brunnið upp í verðbólgubáli. Því vildi hann krefjast þess að ríkisstjórnin standi við gefin loforð.

Maðurinn kom ríðandi í  bæinn og því útvegaði Reykjavíkurborg hestakerru til að fjarlægja hestinn og keyra hann til síns heima. Eftir að hafa spjallað við lögreglu gekk maðurinn sína leið, en hann gæti þó átt von á sekt, þar sem ólöglegt er að ríða um á hesti annars staðar en á merktum reiðgötum á höfuðborgarsvæðinu.

„Manninum tókst ekki að afhenda forsætisráðherra bréfið í þetta sinn, en honum tókst svo sannarlega að vekja á sér athygli,“ sagði lögregluþjónn í samtali við fréttastofu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×