Innlent

Fleiri fá rétt á greiðslum

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Eygló kynnti frumvarpið í Velferðarráðuneytinu í dag.
Eygló kynnti frumvarpið í Velferðarráðuneytinu í dag.
Frítekjumark vegna tekna ellilífeyrisþega hækkar upp í 1.315.000 kr úr 480.000 kr á ári verði frumvarp Eyglóar Harðardóttur um breytingar á lögum um almannatryggingar samþykkt. Auk þess munu lífeyrissjóðstekjur ekki skerða grunnlífeyri almannatrygginga eins og verið hefur.

Frumvarp félags-og húsnæðismálaráðherra var lagt fram á Alþingi fyrr í dag og felur í sér afnám ýmissra skerðinga, en verði það að lögum myndu tekjur sjö þúsund lífeyrisþega hækka. Þar af eru um 2.500 einstaklingar sem ekki hafa fengið greiðslur að undanförnu vegna tekjuskerðinga en öðlast rétt til lífeyris á ný.

"Frumvarpið mun hvetja til aukinnar atvinnuþáttöku ellilífeyrisþega. Þá munu lífeyristekjur ekki lengur skerða grunnlífeyri sem hefur verið mikið gagnrýnt" sagði Eygló í samtali við Vísi.

Árið 2009 voru gerðar ýmsar breytingar á lögum um almannatryggingar og lögum um málefni aldraðra sem leiddu til umtalsverðra skerðinga á kjörum aldraðra og öryrkja. Breytingarnar fólust meðal annars í því að fjármagnstekjur voru látnar skerða að fullu tekjutengdar greiðslur í stað 50% skerðingar áður og eins var frítekjumark ellilífeyrisþega vegna atvinnutekna lækkað umtalsvert.

Verði frumvarpið samþykkt munu framlög ríkisins til almannatrygginga hækka um 850 milljónir á þessu ári og um 1,6 milljarð á því næsta þegar áhrif breytinganna eru komin fram að fullu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×